- Advertisement -

Handarbakavinnubrögð, geðþóttaákvarðanir og almennt klúður

„Handarbakavinnubrögð, geðþóttaákvarðanir og bara almennt klúður er það sem kemur upp í hugann við lestur skýrslu ríkisendurskoðanda um sölu eignarhluta í Íslandsbanka. Sem dæmi má nefna að upplýsingar Bankasýslunnar og Íslandsbanka til fjármálaráðherra, fjármálaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins voru rangar af því að hvorki Bankasýslan né Íslandsbanki kunnu á excel. Það eitt og sér fær mann til að velta því fyrir sér hvers konar kröfur við gerum til þeirra sem fá að stjórna þeim gríðarlegu fjármunum sem bankarnir hafa yfir að ráða eða selja eignarhluti ríkisins í þeim. Eru þetta hinir margnefndu fagfjárfestar, sem kunna ekki á excel? Það er a.m.k. ljóst að þessir aðilar stóðu ekki faglega að verki, svo að ekki sé fastar að orði kveðið,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Flokki fólksins, á Alþingi í gær.

Hún benti á að Ríkisendurskoðun var aðeins falið að; „ … að varpa ljósi á undirbúning og framkvæmd sölu eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka og einna helst þá atburðarás sem átti sér stað á söludegi, 22. mars 2022. Hún tekur þannig til þess hvernig staðið var að sölu umrædds eignarhluta út frá lögum, skilgreindum markmiðum með sölunni og sjónarmiðum um góða stjórnsýsluhætti.“

„Athugasemdir skýrslunnar eru samt ótrúlega margar miðað við þann þrönga stakk sem henni er skorinn. Þar má t.d. nefna að Bankasýslan hafði enga reynslu af tilboðsfyrirkomulagi, að vegna annmarka á framkvæmd var eftirspurn vanmetin við ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð, að ekki var tekið nægilegt tillit til mögulegrar orðsporsáhættu, að eftirspurn hafi gefið tilefni til hærra lokaverðs en miðað var við, að gagnsæi og upplýsingamiðlun hafi verið verulega ábótavant, að kynningar fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Bankasýslunnar á tilboðsfyrirkomulaginu fyrir Alþingi og almenningi hafi ekki varpað nægilegu ljósi á raunverulegt eðli fyrirkomulagsins og hafi þannig beinlínis verið villandi, að þrátt fyrir að alltaf hafi verið rætt um lokað söluferli hafi söluferlið í raun verið opið söluferli, að ruglað var með hugtökin hæfir fjárfestar og hæfir fagfjárfestar. Og þetta er aðeins það helsta,“ sagði Ásthildur Lóa.

„Það er ástæða til að ræða verðið, hvernig það var ákvarðað og af hverju hlutabréfin voru seld með svo miklum afslætti sem raun ber vitni,“ sagði hún.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ásthildur:

Ég spyr nú bara í fáfræði minni hvernig það getur haft neikvæð áhrif á hlutabréfaverð að selja á markaðsverði eins og svo auðveldlega hefði verið hægt að gera.

„Næg eftirspurn var eftir bréfunum enda bárust tilboð í allan eignarhlutinn á dagslokagengi bankans á söludegi, 122 kr. á hlut eða hærra. En þrátt fyrir það var veittur afsláttur upp á 5 kr. á hlut. Bankasýslan hefur ekki útskýrt það með viðhlítandi hætti hvers vegna bréfin voru seld með þessum afslætti og svo virðist að fá rök hafi legið þar að baki. Í skýrslunni er beinlínis staðfest að ýmsar ákvarðanir, t.d. um leiðbeinandi lokaverð við söluna, hafi ekki uppfyllt kröfur rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, ákvarðanataka hafi verið illa undirbúin með þeim afleiðingum að minna fékkst fyrir hvern hlut. Áherslan hjá stjórnendum Bankasýslunnar var öll á að fæla ekki erlenda aðila frá þátttöku. Þetta er tilgreint sem helsta ástæðan fyrir því að binda verðið við 117 kr. á hlutinn þegar það hefði greinilega getað verið mun hærra. Bankasýslan var ekki búin að kynna fyrir neinum að aðkoma erlendra fjárfesta myndi hafa jafn mikið vægi og raun bar vitni. Það verður að kanna til hlítar hverjir þessir erlendu fjárfestar voru sem svo miklum hagsmunum var fórnað fyrir,“ sagði Ásthildur Lóa.

„Þegar listinn yfir fjárfestana er skoðaður kemur í ljós að erlendir fjárfestar voru í flestum ef ekki öllum tilfellum erlendir sjóðir sem enginn veit hver stendur á bak við. Voru þeir kannski bara íslenskumælandi og búandi í Sviss? Eða kannski erlend félög í endanlegri eigu íslenskra aðila? Og hvers vegna er það eitthvað til að óttast að slíkir aðilar myndu hugsanlega falla frá þátttöku? Hefði það jafnvel getað dregið úr orðsporsáhættu að hafna tilboðum frá slíku huldufólki? Þessu virðist enn vera ósvarað. Eftir stendur að Bankasýslan fórnaði fjárhagslegum hagsmunum ríkisins fyrir þessa erlendu sjóði. Önnur rök Bankasýslunnar fyrir því að lækka verðið voru áhyggjur hennar af því að frekari hækkun gæti haft neikvæð áhrif á þróun hlutabréfaverðs bankans að sölu lokinni. Ég spyr nú bara í fáfræði minni hvernig það getur haft neikvæð áhrif á hlutabréfaverð að selja á markaðsverði eins og svo auðveldlega hefði verið hægt að gera. Það væri áhugavert að fá svör við því eins og svo mörgu öðru.“

 „Annað er alvarlegra og það er að þegar Bankasýslan kom fyrir nefndir Alþingis var ekki búið að taka ákvörðun um hvernig söluferlið ætti að vera. Samkvæmt lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum á ráðherra að skila greinargerð um fyrirhugaða söluaðferð og í henni skal koma fram hvaða söluaðferð verði beitt. Það er það sem kynningin fyrir nefndum Alþingis á að snúast um. Þess í stað kynnti ráðherra áform um að selja bankann einhvern tímann á næstu tveimur árum með einhverri af nokkrum mögulegum söluaðferðum og án þess að búið væri að ákveða í hve mörgum áföngum hlutirnir yrðu seldir. Það er því engin furða að þingnefndirnar hafi ekki getað gagnrýnt sölufyrirkomulagið, enda lítið um það ákveðið þegar leitað var álits nefndanna,“ sagði Ásthildur Lóa.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: