Leiðari Sjálfstæðisflokkurinn leikur á reiðiskjálfi. Fólkið í flokknum er hvorki einróma né eintóna. Þingmenn flokksins hafa skilað sér hver á sinn bás og bíða þar til formaðurinn kinkar kolli og klappa þegar hann segir. Það á ekki við um allt fólk í flokknum.
Bjarni Benediktsson lætur sem hann sé þeirrar skoðunar að uppljóstranir gærdagsins hafi ekki áhrif. Þegar Morgunblaðið leitaði til hans, vegna mælinga á umtalsverðu fylgistapi flokksins, segist hann ekki telja að það hafi neitt með stöðu sína og uppljóstranirnar að gera.
Engum öðrum dylst að Bjarna er mikill vandi á höndum. Jafnvel er komið að þeim krossgötum í Sjálfstæðisflokknum að fólki þyki nóg komið og að staða formannsins sem umfangsmikils fjárfestis og staða hans í stjórnmálum samræmist engan veginn, hið minnsta mjög illa.
Það fólk sem starfar mest með Bjarna mun frekar ganga með honum dauðagöngu en reyna að vekja athygli hans á hvert stefnir. Utan Valhallar er hinn almenni flokksmaður. Hið raunverulega bakland Sjálfstæðisflokksins. Meiri flótti er brostinn á í þeim hópi en áður.
Núna er ekkert sem bendir til eða segir að Sjálfstæðisflokkurinn nái að endurheimta fyrri stöðu sína. Þess í stað bendir allt til að staða flokksins fari versnandi. Aðeins er spurt hversu merðvirkur getur einn stjórnmálaflokkur verið. Fyrir Sjálfstæðisflokkinn er þetta dauðans alvara.
Sigurjón M. Egilsson.