Staða WOW: Breytir sáralitlu fyrir ykkur eða þjóðarbúið.
Gunnar Smári skrifar:
Mér finnst leiðinlegt að segja ykkur það, nú þegar fólk fylgist með dauðastríði WOW eins og væri það spennandi framhaldsþáttur; en það skiptir sára litlu hvort WOW fari á hausinn og önnur fyrirtæki taki yfir þann hluta af starfseminni sem stendur undir sér eða hvort WOW lifi af og aðlagi sig í framtíðinni að þeim hluta starfseminnar sem stendur undir sér. Breytir sáralitlu fyrir ykkur eða þjóðarbúið.
Kröfuhafarnir hafa þegar tekið yfir stjórn WOW, eins og ef félagið væri komið til skipta. WOW hefur þegar fellt niður þær ferðir sem síst stóðu undir sér, fækkað vélum og sagt upp fólki. Að fresta kjaraviðræðum meðan beðið er eftir einhverjum úrslitum fyrir atvinnu- og efnahagslífið er svo hámark vitleysunnar, byggt á vísvitandi oftúlkun á mikilvægi þess hver verði örlög WOW sem fyrirtækis. Það eru 22 flugfélög sem fljúga til Íslands og fráleitt að halda því fram að fall eins þeirra, þótt stórt sé, valdi hér djúpstæðu kerfishruni; fráleit vitleysa.