Halldór biður launþega um skilning
- segir fyrirtækin ekki ráða við þær launahækkanir sem krafist verður.
„Á sama tíma og verkalýðsfélögin eru að kalla eftir ábyrgð atvinnulífsins og skilningi á stöðu þeirra sem lægst hafa launin, þá virðast mörg þeirra vera að sýna takmarkaðan skilning á stöðu fyrirtækjanna, sem félagsmenn verkalýðsfélaganna starfa hjá. Það er vitanlega umhugsunarefni fyrir okkur öll, ef verkalýðsfélögin ætla að fara fram með þessum hætti og sýna þar með takmarkaða ábyrgð í atvinnulífinu,“ sagði Halldór Benjamín í samtali við Morgunblaðið í gær, þegar hann var spurður um álit SA á nýframkominni kröfugerð Framsýnar í viðtali sem birt er í Mogga dagsins.
„Við hjá Samtökum atvinnulífsins vonum heilshugar, að kröfur þeirra verkalýðsfélaga, sem munu leiða þær kjaraviðræður sem fram undan eru verði í meira samræmi við raunveruleikann, en þessar kröfur Framsýnar eru,“ sagði Halldór jafnframt.
Ákall Halldórs Benjamíns til launþega er skýrt. Hann vill að láglaunafólk finni til með fyrirtækjunum í landinu. Hann segir að farið verði að kröfum Framsýnar færi allt á verri veg.
„Ef við heimfærum hvað þessi kröfugerð Framsýnar myndi þýða fyrir fyrirtækin í landinu, þá væru fyrirtækin að taka á sig 200 til 300 milljarða hækkun launakostnaðar á ári. Það sér hver maður í hendi sér, að slíkt myndi bara leiða til rangrar niðurstöðu fyrir alla og valda öllum tjóni. Þessi nálgun hefur einfaldlega gengið sér til húðar,“ sagði Halldór Benjamín enn fremur.
Hann rökstyður ekki útreikninga sína.