Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og einn af varaforsetum ASÍ, skrifar:
Framkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins heldur áfram ásrásum sínum á verka og láglaunafólk á íslenskum vinnumarkaði, nú síðast í Víglínunni í gær. Honum finnst líf láglaunafólks ekki nógu erfitt. Mér verður hugsað til orða franska rithöfundarins Eduard Louis þegar hann beinir orðum sínum að Macron: Honum finnst þau fátæku of rík og þau ríku ekki nógu rík. Framkvæmdarstjórinn er orðinn eins og karakter úr sögu frá 19. öld um grimmdareðli eignastéttarinnar: Halldór Benjamín vill að verka og láglaunafólk axli allar byrðar kreppunnar. Hann vill að fólkið sem uppsker minnst fyrir vinnuna sína af öllum á eyjunni fái ekki lífsnauðsynlegar hækkanirnar sem það bíður eftir. Honum finnst hinn skelfilegi fórnarkostnaður sem nú þegar hefur verið lagður á félagsfólk Eflingar og annað verka og láglaunafólk ekki nógu mikill. Hann og samstarfsfólk hans horfir hrifið til Bandaríkjanna og óskar þess að hér væri hægt að innleiða sömu lífsskilyrði. Hræðilegu atvinnuleysinu, afleiðingu sóttvarnaraðgerða stjórnvalda, í hópi láglaunafólksins úr ferðamanna-iðnaðinum reynir hann að kenna forystu hreyfingar vinnandi fólks um. Hann lætur sem að hann skilji ekki að í kreppunni sem nú ríkir, sem þegar hefur haft verstu afleiðingarnar á líf þeirra sem minnst áttu fyrir, skiptir ekkert meira máli til að vinna gegn skelfilegum ójöfnuði og kerfislægri misskiptingu. Eins og Ragnar Þór formaður VR bendir á í gagnrýni sinni á málflutning framkvæmdarstjórans: „Ekkert tillit skal tekið til þess að í niðursveiflum og kreppum taka markaðslaun skell og því mikilvægast að verja grunninn.“
Það er með stórkostlegum ólíkindum að verða vitni að því að fremsti leiðtogi atvinnurekenda þykist ekki skilja þetta grundvallaratriði og láti sem að fyrirtæki geti ekki lækkað sinn launakostnað með því að stemma stigu við yfirborgunum. Enn og aftur þarf að uppfræða um staðreyndirnar: Halldór Benjamín og SA ráðast á fólkið á töxtunum, fólkið með lægstu launin, fólkið sem notar allar sínar krónur í sínu nærumhverfi.
Afhjúpunin er algjör. Halldór Benjamín hefur ekki áhyggjur af aukningu misskiptingar. Hann hefur ekki áhyggjur af því að bankarnir séu að springa af fjármagni á meðan að sífellt fjölgar í hópi þeirra sem eru svo fátæk að þau þurfa að leita á náðir hjálparsamtaka til að fá mat handa sér og sínum. Hann bendir á þau sem eiga nóg hafi ekki tækifæri til neyslu og séu þess vegna bara að spara. Því megi ekki hækka laun frekar. Er þetta boðlegur málflutningur? Við erum með stóran hóp af fólki sem á aldrei nóg til að láta enda ná saman. Aldrei nóg til að geta eignast eigið húsnæði. Aldrei nóg til að geta slakað á, frjáls undan áhyggjunum. Aldrei nóg til að tryggja efnahagslegt öryggi barnanna sinna. Á þetta fólk að sætta sig við að fá ekki sínar hækkanir af því að efnameira fólk ætli að spara sig í gegnum kreppuna? Á ég sem formaður í félagi verka og láglaunafólks að segja mínum félögum að því miður verði ég að samþykkja kjaraskerðingu hjá þeim af því að sumt fólk, vissulega ekki þau, eigi of mikið af peningum? Er fólk búið að missa vitið?
Á sama tíma og Halldór Benjamín berst áfram í sínu herskáa stéttastríði gegn hinum lægst launuðu talar hann fjálglega um að bæta verði vinnubrögð í vinnumarkaðs-bransanum. Ég leyfi mér hér með að segja að það besta sem gert yrði til að bæta „vinnubrögðin“ væri að verkalýðshreyfingin sýndi að hún hefur ekki áhuga á samskiptum við menn sem geta ekki staðið við samninga, menn sem geta ekki fylgt lögum, menn sem standa vörð um launaþjófa, menn sem sýna aftur og aftur að þeir hafa hvorki getu né áhuga á því að setja sig í spor vinnuaflsins. Menn sem sem telja að góð vinnubrögð séu fólgin í því að öll hlýði þeim.
Eftir það sem á hefur gengið á síðustu mánuðum fer spurningin að verða ansi aðkallandi: Af hverju ættum við að láta bjóða okkur þessa forhertu frekju, þennan innblásna yfirgang, þetta aðals-manna oflæti? Hvað græðum við, vinnuaflið, á því að viðurkenna lögmæti SA í okkar kjarasamnings-umhverfi? Á þessum tímapunkti er svarið: Ekki neitt. Við uppskerum ekkert nema rugl í besta falli og lögbrot í versta falli. Það eru einfaldlega einfaldar staðreyndir sem ekki er hægt að líta fram hjá og sem ég ætla ekki að líta fram hjá.