- Advertisement -

Halldór Benjamín og stóra planið hans

Gunnar Smári skrifar:

Þetta vikugamla viðtal er áhugavert. Þar segir: „Halldór Benjamín segir að það séu tvö meginsjónarmið sem takist á í vestrænni hagstjórn og pólitík um þessar mundir. „Annars vegar það sjónarmið að, sem ég er ósammála, að leiðin út úr kreppunni sé aukin skattlagning, bæði á einstaklinga og fyrirtæki. Hin leiðin sem ég tel að sé rétta leiðin er sú að við verðum að vaxa út úr þessu. Það er að segja hagkerfið verður að stækka. Það eru þær grunntillögur sem við leggjum til. Hvernig við getum stuðlað að því að fyrirtækin, þegar þau ná fyrri styrk á nýjan leik, geti haldið áfram sókn sinni. Skilað auknum skatttekjum inn í samfélagið. Við leysum ekki vandann með aukinni skattlagningu. Við verðum að finna leiðir til að vaxa og vaxa á arðbæran máta. Það á að vera í mínum huga mál málanna í komandi kosningum,“ segir Halldór Benjamín.“

Er ekki eitthvað skrítið að Halldór Benjamín og SA, sem eru samtök hinna fáu ríku, séu að leggja upp um hvað almenningur kýs næsta haust, hvernig hann skiptar lýðræðisvettvanginn, sem er eitt af helsu varnartækjum almennings gagnvart valdi auðsins? En kannski er það ekki skrítið í þessu samfélagi okkar, þar sem svo til öll stjórnmálaelítan sættir sig við völd auðsins og telur það skyldu sína að stjórna landinu í takt við væntingar og kröfur fjármagnseigenda og allra stærstu eigenda atvinnulífsins. Og svo vitum við að kröfur hinna ríku verða kosningastefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og mun marka stefnu Viðreisnar og Miðflokksins að mestu leyti og hafa umtalsverð áhrif á stefnu Framsóknar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það má því sjá af tillögum SA (sjá hér: https://holdumafram.sa.is/) hver áætlun hinna ríku er. Hún er að gera ekkert til að skapa störf fram að kosningum, halda fólki atvinnulausu fram að kosningum en tryggja að eigendur stærstu fyrirtækjanna geti haldið sinni stöðu. SA, og þar með ríkisstjórnin, mun ekki styðja neina atvinnusköpun hjá hinu opinbera því eigendur fyrirtækja vilja aðgang að ódýru vinnuafli þegar landið rís að nýju. Og samtökin reikna út að það verði um og upp úr miðju sumri. Þá ætla þau að láta ríkisstjórnina og þá flokka sem lúta stjórn samtakanna að mæta með kosningaspá bjartsýninnar; að nú sé allt að braggast og með skattalækkunum á hin ríku, áætlun um einkavæðingu og útvistun verkefna hins opinbera, minna eftirliti og neytendavernd, minni völdum verkalýðsfélaga (sem sagt Reaganomics, helstefnu nýfrjálshyggjunnar) muni allt verða gott að nýju. Niðurstaðan af þessari stefnu er þekkt; aukin völd hinna allra ríkustu og minni völd almennings, linnulaus tilflutningur fjár frá þeim sem lítið sem ekkert eiga til þeirra sem mikið eiga og vilja sífellt meira, niðurbrot velferðarþjónustu, aukin gjaldtaka, minna öryggi, veikari réttindi og lakari kjör.

Sveltum lýðinn og brjótum hann niður.

Þetta er sem sagt planið: Sveltum lýðinn og brjótum hann niður en birtumst stuttu fyrir kosningar sem frelsandi englar, myndum ríkisstjórn auðvaldsflokkanna (Sjálfstæðis-Miðflokk, Viðreisn og kannski Framsókn / 52,4% í nýjustu könnun MMR) og notum hana til að brjóta smærri fyrirtæki undir hin stærri, flytja almannaeigur og -auðlindir til stóreignafólks og færum opinbera þjónustu og innviði til einkafyrirtækja.
Þetta er planið. Hvernig svörum við því?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: