- Advertisement -

Halldór Benjamín og Bjarni Ben eru ábyrgir

Katrín: „Fátækt er blettur á ríku samfélagi eins og Íslandi.

Sigurjón M. Egilsson skrifar:

Fádæma staða er í íslensku samfélagi. Þrátt fyrir að hér hafi margt gengið okkur í haginn er staðan samt sú, að hér er viðvarandi fátækt. Fólk í fullri vinnu aflar ekki tekna fyrir nauðþurftum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Fátækt er birtingarmynd kerfis sem ýtir undir misskiptingu. Kerfis þar sem tölurnar sýna svart á hvítu að sköttum hefur verið létt af hinum tekjuhæstu en skattbyrði hinna tekjulægri hefur þyngst á síðustu árum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir ekki löngu áður en hún settist í stjórnarráðið með Bjarna Benediktssyni.

Það er einmitt það. Síðan hefur margt breyst og margt gleymst, er ekki svo? Hið minnsta er að Katrín fer hljótt með þessa skoðun sína, hafi hún þá ekki skipt um skoðun. Það kæmi svo sem ekki á óvart.

Með vilja og vitund helsta valdamanns Íslands, Bjarna Benediktssonar, er svo komið að meðal okkar er fólk sem lifir í sára fátækt. Meðferð Bjarna á öryrkjum dugar ein og sér til að sanngjarnt fólk skipi sér í lið gegn ríkisstjórn sem Bjarni ræður mestu í.

Halldór Benjamín Þorbergsson, helsti útvörður yfirstéttarinnar, fer mikinn þessa dagana. Auðvitað veit Halldór Benjamín að meginhluti fyrirtækja getur strax í dag kvittað upp á sanngjarnar kröfur launafólks. Strax í dag. Hann, rétt eins og forverar hans í leðurstólnum, láta lökustu fyrirtækin ráða förinni.

Annað hvort er, að fólkið í Borgartúni 35 sé tilfinningalaust eða það sér hag sínum betur borgið í átökum við starfsfólk sitt. Nema hvoru tveggja sé. Fullyrða má að flest fyrirtæki landsins geta kvittað upp á samningana hér og nú.

Má vera að harðstefna Halldórs Benjamíns og hans yfirboðara leiði til flótta úr þeirra eigin samtökum, SA. Að fyrirtækin fara undan regnhlífinni og semji síðan við sitt starfsfólk? Sennilega mun koma að því.

Stöðugleiki einn og sér er fátækum ekki allt. Fólk sem aflar ekki fyrir nauðþurftum getur ekki tekið ábyrgð á stöðugleika. Bara alls ekki. Það vita allir að annarra er að gæta að stöðugleikanum.

Tveir menn, Halldór Benjamín og Bjarni Ben eru holdgervingar þess hvernig komið er fyrir þeim sem minnst hafa.

Og kannski Katrín: „Fátækt er blettur á ríku samfélagi eins og Íslandi. Stjórnvöld ættu að hafa skýra sýn og aðgerðaáætlun um útrýmingu hennar og vera reiðubúin að sækja þá fjármuni sem þarf til að styrkja velferðarkerfið og bótakerfið – við vitum öll að þeir eru til,” sagði hún áður en hún gekk í lið með Bjarna.

Fátækt fólk beri ekki ábyrgðina. Það gerir annað fólk.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: