Halla aðeins 28 ára og þrívegis greinst með krabbamein: „Stundum er það alveg ömurlegt og sárt“
Halla Dagný Úlfsdóttir hefur þrisvar sinnum greinst með krabbamein en hún er aðeins 28 ára gömul. Hún greindist fyrst fyrir fjórum árum með leghálskrabbamein á fjórða stigi, síðar sama ár greinist hún aftur og í þriðja skiptið í lok árs 2020.
Við tóku lyfjameðferðir, geislar og að lokum eftir þriðju greininguna, sem var staðbundin, var framkvæmd aðgerð. Aðgerðin var legnám þar sem legið, legháls og eggjaleiðarar eru teknir. Í dag er eitt og hálft ár síðan krabbameinið gerði síðast vart við sig og hún ræddi veikindin í samtali við Vísi.
„Vinkonur mínar sem voru bara áfram í háskólanum og voru að djamma og ég var bara heima eitthvað með krabbamein, við hvern á ég að tala? Fyrst þegar ég greindist þá var enginn tími til að bíða og ræða þessi málefni, það var ekki einu sinni minnst á það en ég einhvernveginn gerði mér grein fyrir því sjálf að það væri ekkert gefið að ég gæti átt börn. Núna undanfarið finn ég hvað ég hefi viljað það mikið,“ segir Halla og heldur áfram:
„Það er eins og að syrgja eitthvað, stundum er það alveg ömurlegt og sárt. Ég náttúrulega lifi þannig að ég get vaknað á morgun með einhvern verk og það er komið aftur krabbameinið.“