Gunnar Smári skrifar:
Ástæðan heitir Sigríður Á. Andersen.
Eftir illskiljanlegan kynningarfund ráðherranna um 1000 smit og 750 smit á 100 þúsund íbúa í löndum eða bara á tilteknum svæðum strokaði þingið þetta út og færði sóttvarnalækni aftur völd til að skilgreina hvað eru áhættusvæði og hvað ekki. Tilraun ríkisstjórnarinnar til að útiloka sóttvarnalækni og binda hendur hans tókust ekki, Alþingi lagaði frumvarpið sem ríkisstjórnin hafði samið sem málamiðlun milli þeirra sem vildu fara að almannavilja um sterkar varnir á landamærum til að verja daglegt líf innan þeirra og öfga-hægrisins sem vildi meina sóttvarnalækni að beita sóttkví á landamærum nema að uppfylltum svo absúrd skilyrðum að enginn yrði í reynd skikkaður á sóttkvíarhótel. Og við atkvæðagreiðsluna í nótt kom í ljós að hvers vegna ríkisstjórnin var frá 5. apríl til 20. apríl að sjóða saman þennan graut, frá því að dómur héraðsdóms féll og þar til fundurinn í Hörpu var haldinn; ástæðan heitir Sigríður Á Andersen. Hún var sú eina sem greiddi atkvæði gegn lagfæringum sem komu út úr velferðarnefnd.
…þar sem mesta heimskan í samfélaginu yfirtrompar…
Þessi hálfvitagangur á ríkisstjórninni, að draga nauðsynlega lagasetningu von úr viti og mæta svo með arfavitlaust frumvarp og heimta að það verði afgreitt í hvelli, allt út af sjónarmiðum fráleidds minnihluta langt út á jaðri stjórnmálanna, innan úr einhverjum Ayn Rand-helli alt-hægrisins; sýnir að þessi ríkisstjórn er að fara á límingunum. Hún er veik, en frammi fyrir prófkjörum og kosningum er hún í raun óstarfhæf.
Nú var það svo að Alþingi lagaði hluta af vitleysunni, öfugt við síðast, þegar Sigríður Á Andersen tókst að leiða hluta Viðreisnar og Pírata með sér í andstöðunni ásamt fúlu körlunum í Sjálfstæðisflokknum, og eyðileggja ásetninginn í frumvarpinu sem varð að lögum í febrúar. Kannski á maður að fagna þessu, að þingið náði að laga þetta aðeins.
En hvers vegna er verið að móta stefnu í mikilvægum málum á svona vettvangi, eins og ríkisstjórnin er; þar sem mesta heimskan í samfélaginu yfirtrompar vísindin, þekkinguna og vilja mikils meirihluta almennings? Er ekki hægt að losna við þessa ríkisstjórn? Ekki ætlið þið að fara að kjósa þetta?