Greinar

Hálendið verði ekki græðgisvæðingu að bráð

By Ritstjórn

December 09, 2020

Þór Saari skrifar:

Hálendisþjóðgarður er mjög mikilvægur, en er frekar nauðsynlegt mál en gott. Nauðsynlegt vegna heildarmyndarinnar, sem er sú að þá geta einkaaðilar (sem oftast eru vinir „aðal“ í einhverjum nærliggjandi sveitastjórnum) ekki farið sínu fram óáreittir með eitthvað sem þeir kalla „uppbyggingu“. Það er líka eina leiðin til að tempra yfirgang ferðaiðnaðarins hvers stefna er enn óbreytt og stórskaðleg fyrir landið, en það er stefnan „fleiri, fleiri og fleiri ferðamenn“ alveg sama hvað. Þótt vissir staðir á hálendinu séu í dag frekar fáfarnir er það bara spurning um tíma hvenær þeir verða eins og Geysissvæðið og ferðaiðnaðinum er bara alls ekki treystandi fyrir umgengni við landið.

Stjórn Hálendisþjóðgarðsins verður með sama hætti og Vatnajökulsþjóðgarðs sem gefur bæði sveitarstjórnum og ferða- og útivistarfélögum aðkomu að stjórninni. Vissulega mætti ýmislegt hafa farið betur í þeim samskiptum en það eru atriði sem þarf að leggja áherslu á og slípa til og eru í raun smáatriði í stóru myndinni. Reglugerðarvald ráðherra mætti e.t.v. tempra meira sem og vald stjórnar til að banna tiltekna umferð og þeim ákvörðunum ætti að vera hægt að skjóta á annað stjórnsýslustig eða til óháðrar nefndar. Aðalatriðið er að hálendið verði ekki græðgisvæðingu að bráð, sem mun gerast ef hagsmunaaðilar og sveitarfélög ein fá að ráða málum áfram.