- Advertisement -

Halda úti slefberum og skítadreifurum

Þær yrðu þá háar og margar sektirnar sem stjórnmálamenn fengju.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Mér finnst það göfugt að norrænu ríkin ætli að fara að berjast gegn upplýsingaóreiðu. En hvernig er það hægt, þegar stjórnmál ganga hreinlega út á slíka óreiðu?  Á að krefjast þess að stjórnmálamenn segi alltaf sannleikann? Þá færi nú illa fyrir velflestum þingmönnum og ansi mörgum sveitarstjórnarmönnum, sem fara æði oft með rangt mál, snúa út úr, fara með fleipur, endurtaka falskan orðróm, breiða út samsæriskenningar, segja hálfsannleik eða ljúga hreint út. Nú ýmsir fjölmiðlar ganga nánast út á það sama, að ég tali nú ekki um ýmsa aðila í atvinnulífinu.

Upplýsingaóreiðan væri ekki svona mikil, ef fyrirmyndirnar í opinberri umræðu ýttu ekki undir það. Ef hægt væri að treysta því, að upplýsingar frá opinberum aðilum væru í raun og veru réttar. Ef hægt væri að treysta orðum forystumanna í atvinnulífinu og forsvarsmanna/talsmanna stjórnmálaflokka, hagsmunasamtaka og fyrirtækja. Ef þessir aðilar héldu ekki úti slefberum, samsæriskenningarsmiðum og skítadreifurum til þess að bera út ósannindi á mótherja sína, fjölmiðlafólk og alla þá sem voga sér að segja það sem þessum aðilum er ekki þóknanlegt, þó það sé sannleikanum samkvæmt. (Auðvitað gangast þessir aðilar ekki við því að halda úti þessum skítadreifurum, en það vita allir hverjir eru á vegum hvaða flokks/hagsmunaaðila.)

Og fjölmiðlar láta gott heita!

Og hvað á að gera? Sekta þá sem virðast hafa lífsviðurværi sitt af því að dreifa röngum upplýsingum, búa til samsæriskenningar, o.s.frv.? Þær yrðu þá háar og margar sektirnar sem stjórnmálamenn fengju, að ógleymdum forsvarsmönnum/talsmönnum hagsmunasamtaka í atvinnulífinu og fyrirtækja.

Ég gerði það einu sinni að tæta í mig Kastljósviðtal sem átt var við talsmann hagsmunasamtaka. Það voru einhver 15 atriði eða svo röng hjá viðkomandi. Hann hélt bara áfram á sömu leið, breytti engu í sínum málflutningi og fjölmiðlum var alveg sama. Í öðru Kastljósviðtali laug talsmaður fjármálafyrirtækis ítrekað um góðmennsku fjármálafyrirtækisins og þegar honum var bent á það, þá var honum alveg sama og það sem meira var, að það þótti ekki einu sinni fréttnæmt að hann væri að ljúga. Á þessum árum, þá hringdu fjölmiðlar reglulega í mig eftir að stjórnvöld höfðu birt upplýsingar um skuldamál heimilanna og spurðu mig að því hvort Árni Páll, Steingrímur J eða Jóhanna hefðu verið að segja rétt frá og hvort tölur væru réttar! Opinber viðbrögð í umdeildum málum eru nánast alltaf afvegaleiðing sannleikans, einhvers konar hvítþvottur, hreinar lygar eða hent er fram smjörklípu til að koma athyglinni eitthvað annað. Og fjölmiðlar láta gott heita!

En ég bíð spenntur að sjá hvernig norrænu ríkin ætli að bregðast við upplýsingaóreiðu og hvort stjórnmálamenn verði teknir sérstaklega fyrir.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: