Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar, er hugsi yfir stöðu fjölmiðlanna. Hún bendir á að ríkisstjórnin haldi þeim í raun í spennitreyju – á sama tíma og þeir eiga að veita stjórnvöldum aðhald. „Allt er upp í loft,“ segir Hanna Katrín.
„Fjölmiðlar leika lykilhlutverk í því að veita stjórnvöldum aðhald. Ekki síst á erfiðum tímum eins og nú, þar sem meðal viðbragða við Covid-19 eru tímabundin inngrip í almenn mannréttindi. Fyrirliggjandi skuldsetning ríkissjóðs í tengslum við neyðaraðstoðina og aðgerðirnar sjálfar fá heldur ekki hefðbundna umfjöllun á þingi. Allt er upp í loft,“ skrifar Hanna Katrín á Facebook.
„Á þessum fordæmalausu tímum búa einkareknir fjölmiðlar við erfiðara rekstrarumhverfi en nokkru sinni áður. Það sem verra er, framtíð þeirra er í höndum stjórnvalda sem hefur það sem er af kjörtímabilinu mistekist að ná saman um nauðsynlegar aðgerðir til að styðja við reksturinn. Vegna Covid-19 er staðan orðin enn alvarlegri, enda hrun í auglýsingatekjum það síðasta sem fjölmiðlarnir máttu við.
Einstaka ráðherrar hafa verið með hálfkveðnar vísur um að nú sé aðstoðin alveg að koma. En ekkert hefur gerst. Þetta gengur auðvitað ekki lengur. Það er nægileg áskorun fyrir fjölmiðla að veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald á tímum sem þessum – en það þarf mjög sterk bein og mikla hugsjón til að gera það þegar þessi sömu stjórnvöld geta með einu pennastriki ráðið örlögum sömu fjölmiðla. Það er ekki boðlegt í lýðræðisríki að halda fjölmiðlum í svona stöðu.
Ég ræddi þessa stöðu í Vikulokunum á RÚV í gær. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins var sammála mér í því aðgerða væri þörf strax. Næsti aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar er boðaður næstu daga. Það verða mjög alvarleg tíðindi ef einkareknum fjölmiðlum verður ekki rétt nauðsynlegt hjálparhönd þar.“
-sme