- Advertisement -

„Halda áfram að bryðja rótsterk verkjalyf“

Framtíðaröryrkjar í boði ríkisins.

Alþingi / „Biðlistar eftir nauðsynlegum aðgerðum lengjast sífellt og því verða sjúklingar á biðlistum eftir t.d. bæklunaraðgerðum að halda áfram að bryðja rótsterk verkjalyf, en þeir sem geta og vilja geta kannski skriðið fljótlega um borð í flugvél og farið í aðgerð í útlöndum með tilheyrandi kostnaði, allt að þreföldum, í boði ríkisins. En auðvitað er ekki hægt að nýta sömu þjónustu hér á landi þar sem í boði eru þrjár aðgerðir fyrir hverja eina í útlöndum. Það er ekki frábær hagstjórn.“

Þetta er síðasta tilvitnunin í ræðu Guðmundar Inga Kristinssonar, Flokki fólksins, frá eldhússdegi Alþingis.

„Börn bíða og bíða á biðlistum eftir meðferð á BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Fjölmörg börn fá ekki þá hjálp sem þau eiga lagalegan rétt á og falla því utan kerfis og verða að hverju? Framtíðaröryrkjum í boði ríkisins. Börn með langvarandi, geðræn vandamál eru á biðlistum eftir meðferð við hæfi, og þá sérstaklega ef þau eru á einhverfurófi. Það er ekki bara fáránlegt heldur okkur hér á Alþingi til háborinnar skammar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Geðrænir sjúkdómar eru lamandi.

Geðrænir sjúkdómar eru lamandi, hamlandi og valda þjáningum og eru lífshættulegir, sagði móðir barns sem ekki fær þjónustu við hæfi fyrir barnið sitt. Barnið fær bara fimm klukkustundir í allt sumar eftir öll meðferð þess fór forgörðum vegna Covid-19. Það er skammarlegt, bara fimm klukkustundir í allt sumar,“ sagði Guðmundur Ingi.

„Þetta er Covid-mál sem á að vera í forgangi og okkur ber að leysa strax eins og önnur slík mál,“ sagði hann og svo kom þetta:

„Getum við ekki séð til þess að börn, fárveik börn sem einhverra hluta vegna veikjast ekki rétt, fái þjónustu? Eða þarf að gefa það út að sumir sjúkdómar veiti fólki ekki rétt á heilbrigðisþjónustu?

Látum vera að við forgangsröðum málum í sambandi við fullorðna einstaklinga þar sem það á við. En við getum ekki leyft okkur það gagnvart börnum. Það gengur ekki að börn sem þurfa á lífsnauðsynlegri þjónustu að halda séu sett á bið.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: