Það er líklegt til árangurs þegar heilt hús við Borgartún puðar á hverjum degi.
„Stjórnmálaflokkarnir sem urðu til snemma á síðustu öld endurspegluðu það samfélag sem þá var. Samfélagið hefur tekið breytingum og flokkarnir líka en það þýðir ekki að þeir endurspegli samfélagið jafn vel nú og þá. Þvert á móti. Þetta á ekki sízt við um hina hefðbundnu vinstriflokka, VG og Samfylkingu,“ segir Styrmir Gunnarsson í upphafi laugardagsgreinar sinnar í Mogganum.
Undir þetta taka eflaust margir. „Þess sjást engin merki að þeir reyni að undirstrika fyrri tengsl við verkalýðshreyfinguna. Samfylkingin sérstaklega virðist sjá um hagsmunagæzlu fyrir háskólaborgara og hefur í leit að frambjóðendum engan áhuga á verkalýðshreyfingunni,“ skrifar Styrmir. Þetta efast enginn um. Það hafa orðið kynslóðaskipti í flokkunum og þeir eru aðrir en þeir voru.
„Það eru einna helzt Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn sem leggja áherzlu á málefni fyrrverandi skjólstæðinga Alþýðuflokks og Alþýðubandalags,“ bætir Styrmir við og víkur svo að eigin flokki: „Sjálfstæðisflokkurinn var reyndar orðinn annar öflugasti launþegaflokkur landsins fyrir 60 árum en hefur misst áhugann á þeim kjósendahópi án þess að nokkrar skýringar hafi fengizt á því.“
Næst kemur Styrmir að stóru máli. Hagsmunagæslunni:
„Á sama tíma hafa umsvif hagsmunavarða aukizt mjög og þau ná líka til stjórnmálaflokkanna. Þeir vinna nú markvisst innan sumra flokkanna fyrir umbjóðendur sína en sérstaklega þó innan Sjálfstæðisflokksins. Annars vegar gagnvart ráðamönnum flokksins og hins vegar að einhverju leyti innan flokksins í einstökum hópum þar.
Kannski er þessi hagsmunavarzla skýringin á þeim breyttu áherzlum innan Sjálfstæðisflokksins sem nefndar voru hér að framan. Það er líklegt til árangurs þegar heilt hús við Borgartún puðar á hverjum degi.“