Páll Bragi Kristjónsson, sem var einn sakborninga í Hafskipsmálinu, skrifar um málið og tilraunir til að fá málið endurupptekið.
Á árunum 2008 til 2013 rákum við nokkrir félagar úr Hafskipsmálinu, 1986-1991, erindi til ríkissaksóknara um rannsókn á ýmsum málatilbúnaði á sínum tíma, þ.e.a.s. aðdraganda sakargifta…“ Þannig skrifar Páll Bragi.
„Þetta erindi okkar lenti í miklu stappi í kerfinu og fór þar m.a. frá einum ráðherra til annars. Hér skal þó aðeins sagt frá því, að Ragna Árnadóttir, þáverandi dóms- og mannréttindaráðherra stóð vel í fæturna en við máttum síðan sæta því, að eftirmaður hennar, Ögmundur Jónasson, tók annan pól í hæðina og ógilti ákvarðanir hins löglærða fyrirrennara síns. Var þar með einbeitni farin „Krýsuvíkurleiðin“ til að ýta okkur út af borðinu. Ekki hefur verið gerð grein fyrir þessum málarekstri okkar opinberlega svo viðamikill sem hann nú er orðinn, hvað sem síðar kann að verða. Hann segir sögu um kerfið í vörn, m.a. misbeitingu valds og hentistefnu.“
Hann segir sakborninga hafa leitað til umboðsmanns Alþingis, og að skipaður hafi verið sérstakur umboðsmaður í málið, vegna vanhæfis Tryggva Gunnarssonar. Tryggvi var sérstökum saksóknara í Hafskipsmálinu, Jónatan Þórmundssyni, til aðstoðar á sínum tíma. „Hinn setti umboðsmaður tók sér drjúgan tíma til afgreiðslu málsins en hafnaði síðan í löngu máli málatilbúnaði okkar þrátt fyrir að hann tæki undir veigamestu atriðin í honum.“
Páll Bragi segir að lögmaður þeirra, Ragnar Aðalsteinsson, hafi ritað eftir úrskurð, hins setta umboðsmanns, bréf til umboðsmanns Alþingis, „…þar sem hann hnitmiðað hrekur hina lögfræðilegu röksemdafærslu en segir einnig m.a. eftirfarandi:
„Settur umboðsmaður lætur sér í léttu rúmi liggja að þær ákvarðanir stjórnvalda sem erindi umbj.m. beinist að, voru ekki teknar að undangenginni réttri og réttlátri málsmeðferð lögum samkvæmt.“
„Það sem einkennir afstöðu setts umboðsmanns eins og hún birtist í bréfi hans er vörn hans fyrir ríkissaksóknara og embætti hans.“
„Settur umboðsmaður lítur og framhjá því, sem fyrr segir að rannsóknarbeiðendur voru á sínum tíma sakborningar og töldu sig misrétti beitta. Það misrétti er tilefni rannsóknarbeiðninnar.“
Framhjá þessum vanda komst settur umboðsmaður ekki með eðlilegum og skynsamlegum hætti og því eru röksemdir hans svo mótsagnakenndar sem raun ber vitni. Niðurstaða hans verður því óhjákvæmilega röng.“
„Mér þykir rétt að koma ofangreindum sjónarmiðum á framfær við yður, virðulegi umboðsmaður Alþingis, svo ekki fari á milli mála, að þeir telja sig ekki hafa notið réttlátrar meðferðar hjá hinum setta umboðsmanni.“
Þess skal að lokum getið, að hin setti umboðsmaður í málinu var Björn L. Bergsson, hrl. sá hinn sami, sem gegnir formennsku í endurupptökunefndinni og skilað hefur af sér úrskurði í Guðmundar-og Geirfinnsmáli, sem til þess er fallinn að verja kerfið eftir föngum.
Sami grautur í sömu skál.“