„Yfirstandandi hamfarir eru ekki tilefni til að þrýsta í gegn óskalista nýfrjálshyggjufólks um lækkun skatta á fyrirtækja- og fjármagnseigendur,“ sagði Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, í borgarráði.
„Sveitarfélögin sinna gríðarlegri mikilvægri þjónustu í nærsamfélaginu líkt og skólaþjónustu, þjónustu við eldri borgara, fatlað fólk, börn og einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Kórónavírusinn og afleiðingar hans leggur mikið álag á þá þjónustu sem fyrir er og kallar á aukna þjónustu vegna einangrunar fólks, tekjumissis, kvíða og annarra fylgifiska ástandsins. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að Reykjavíkurborg verði leiðandi meðal sveitarfélaga í að krefja ríkið um aukið fjármagn til að sinna þjónustu á vegum sveitarfélaganna,“ sagði Sanna.
„Viðbragð hins opinbera gagnvart faraldrinum og efnahagslegum afleiðingum hans á ekki síst að vera innan nærsamfélagsins og þar með á vettvangi sveitarfélaganna. Hvað varðar lækkun fasteignaskatta á atvinnulífið, þá telur fulltrúi sósíalista að tillagan sé vanreifuð. Hvernig á að mæta töpuðum tekjum? Með auknum álögum á almenning, aukinni gjaldtöku eða með skertri þjónustu? Ef borgarfulltrúar telja fasteignagjöld óréttláta skattheimtu verða þeir að leggja fram tillögur um hvernig betur verður staðið að gjaldtöku af fyrirtækja- og fjármagnseigendum fyrir þá þjónustu sem þeir þiggja af borginni.“
Síðan rifjaði Sanna upp eitt fyrsta baráttumál sitt í borgarstjórn:
„Varðandi uppbyggingu húsnæðis þá minnir fulltrúi sósíalista á tillöguna um að Reykjavíkurborg stofni byggingafélag, slíkt skapar störf og húsnæði fyrir þau í mestri þörf.“