Gunnar Smári skrifar:
Björn Leví Gunnarsson hefur komið með inn í þingsal nokkuð sem ég held að hafi ekki sést þar síðan Vilmundur Gylfason var og hét, opinskátt virðingarleysi fyrir valdinu. Vilmundur hafði kynnst valdafólki (valdamönnum í raun, það tilheyrðu engar konur þeim hópi þá) sem barn og unglingur og hræsni þeirra og tvískinnungur gekk fram af honum. Í blaðagreinum, sjónvarpi og á þingi talaði hann til þeirra af fullkomnu virðingarleysi vegna þess að hann taldi þá ekki eiga neina virðingu skilið. Og þá er ég ekki að segja að hann hafi verið dónalegur, alls ekki. Hann bugtaði sig bara ekki, sýndi valdinu aldrei þá virðingu sem það taldi sig eiga skilyrðislaust skilið. Og það tryllti valdið.
Pólitík Vilmundar var ósköp venjuleg miðjupólitík og í sjálfu sér ekki mikil ógn við auðvaldið, það mætti jafnvel halda því fram að sumt í henni hafi verið eins og forsmekkur af Blairisma nýfrjálshyggjuáranna (annað alls ekki). En afstaða hans, framganga og virðingarleysi hans fyrir ráðherrum og formönnum stofnanaflokka gerði það að verkum að þeim fannst sér standa meiri ógn af Vilmundi en nokkrum öðrum stjórnmálamanni á hans tíma. Þeir vissu að ef þeir missti virðinguna myndu þeir missa allt, vissu að vald þeirra var í raun blekking sem almenningur færði þeim með ótta sínum.
Björn Leví er ekki kominn í sess Vilmundar Gylfasonar í íslenskri pólitík, en hann tryllir valdið, og ekki síst Bjarna Benediktsson, með nákvæmlega sama hætti og Vilmundur lét valdamennina á sínum tíma missa stjórn á sér. Bjarni þolir ekki að mæta manni sem beygir sig ekki fyrir valdi hans, sýnir honum ekki þá virðingu sem hann telur sig eiga skilið. Afstaða Björns Leví gagnvart valdinu, sem ég reikna með að hann hafi byggt upp af nálægð sinni við kúgun, fátækt og basl alþýðufólks – öfugt við Vilmund, er virkasta stjórnarandstaðan á þingi í dag. Þetta er hrós dagsins. Hafðu þakkir fyrir góð störf Björn Leví, láttu þá heyra það.