Af lestri Moggans í dag má álykta að Sjálfstæðisflokkurinn muni aldrei, aldrei gangast inn á að Svandís Svavarsdóttir verði aftur heilbrigðisráðherra í næstu ríkisstjórn flokkanna tveggja og Framsóknar og Viðreisnar ef þarf.
Því segi ég þetta? Jú, eftir lestur nýrra Moggagreina Áslaugar Örnu og Óla Björns. Byrjum á að vitna til Áslaugar Örnu samráðherra Svandísar:
„Við ræðum þessa dagana um margháttaðan vanda heilbrigðiskerfisins, verri þjónustu við leghálsskimanir og liðskiptaaðgerðir og vanmátt Landspítalans til að takast á við erfið verkefni. Í þeirri umræðu virðast flestir ganga út frá því sem gefnu að heilbrigðisþjónustan skuli kostuð og miðstýrð af ríkinu. Engar aðrar lausnir komi til greina en aukið fjármagn úr ríkissjóði þegar að kreppir í rekstrinum. Orðið „einkavæðing“ er óspart notað sem skammaryrði þegar bent er á leiðir til að draga úr kostnaði en bæta samt þjónustuna í leiðinni,“ skrifar hún og heggur heldur betur að Svandísi. Áslaug Arna hætti ekki þarna:
„Ég tel nauðsynlegt að brjóta upp þessa umræðuhefð um heilbrigðiskerfið. Hún er komin í ógöngur þegar aðeins ein skoðun er leyfð. Það þarf að skoða kerfið frá grunni og okkur ber skylda til að vera vakandi fyrir nýjungum og bættum rekstri í þágu okkar allra. Umræða um heilbrigðiskerfið þarf að taka mið af þörfum hinna sjúkratryggðu en ekki kerfisins. Því þurfum við að ræða nýjar leiðir til að ná fram bættri nýtingu fjármuna, aukinni framleiðni og skilvirkni í heilbrigðiskerfinu. Þetta er hægt að gera án þess að auka kostnaðarþátttöku þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. Í mínum huga er nauðsynlegt að einstaklingar og fyrirtæki þeirra komi í auknum mæli að ákveðnum verkefnum og einnig er sjálfsagt að taka upp lausnir úr almennum fyrirtækjarekstri til að ná fram aukinni framleiðni og hagkvæmni við rekstur sjúkrastofnana,“ skrifar dómsmálaráðherrann.
Óli Björn er kannski ekki eins herskár og Áslaug Arna. Samt heggur í Svandísi. Skoðum dæmi:
„Því miður eru dæmin um sjúkraþjálfarana og talmeinafræðingana ekki þau einu um hvernig hægt og bítandi er verið að grafa undan sjálfstætt starfandi heilbrigðisstéttum, takmarka atvinnufrelsi þeirra og hafa réttindi af sjúkratryggðum. Staða sjálfstætt starfandi sérfræðilækna er lítið skárri og hægt en örugglega er verið að hrekja þá út úr sameiginlegu tryggingakerfi okkar allra. Og þar með verður til tvöfalt heilbrigðiskerfi með einkareknum sjúkratryggingum,“ skrifar Óli Björn og heldur áfram:
„Flest verðum við að sætta okkur við heilbrigðisþjónustu innan ríkisrekna tryggingakerfisins, með tilheyrandi biðlistum. Efnameira fólk kaupir þjónustuna beint eða í gegnum eigin tryggingar, af sérfræðilæknum, sjúkraþjálfurum og talmeinafræðingum. Áratuga barátta fyrir því að allir eigi jafnan og greiðan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, verður að engu gerð.“