„Framvinda sögunnar í nýlegum tíma er sú að árið 2009, í fjármálahruninu sem varð hér, var gripið til þess neyðarúrræðis af hálfu þeirra tveggja flokka ríkisstjórnar sem þá sat, Samfylkingar og Vinstri grænna, að skerða grunnlífeyrinn. Það var þá tímabundin neyðaraðgerð og skerðingin féll niður fjórum árum síðar, 2013.“
Þetta sagði Ólafur Ísleifsson Miðflokki á Alþingi.
„Það sem gerist í framhaldinu er að með lögum nr. 9/2017, um breytingu á lögum um almannatryggingar, var gerð sú breyting að sérstaklega var kveðið á um skerðingu ellilífeyris vegna greiðslna úr skyldubundnum, atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Það er náttúrlega mjög mikil breyting frá því sem verið hafði um áratugaskeið. Frá þeim tíma sem þessi lög tóku gildi, sem var 1. mars 2017, hafa greiðslur úr skyldubundnum lífeyrissjóðum lækkað ellilífeyri um 45% sem voru fyrst umfram 25.000 kr. á mánuði en þessi viðmiðunarfjárhæð var síðan hækkuð upp í 100.000 kr. á mánuði. — Nei, herra forseti, afsakið, þá er ég að tala um tekjur vegna atvinnu. Þessi fjárhæð, 25.000 kr. á mánuði vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum, hefur staðið frá því að þessi lög tóku gildi 1. mars 2017. Með þessu var því ákveðið að allar greiðslur úr lífeyrissjóði umfram 25.000 kr. skertu greiðslur úr almannatryggingum um 45%.“