Rannsóknir sýna að óþarflega löng dvöl á bráðamóttöku getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjúklinga.
„Mikill vandi hefur skapast á Landspítala vegna alvarlegs skorts á hjúkrunarfræðingum. Vandinn hefur ýmsar birtingarmyndir en á Landspítala er ástandið hvað alvarlegast á bráðamóttöku. Hlutverk bráðamóttöku er móttaka bráðveikra og slasaðra. Á hverjum sólarhring leita þangað um 100 einstaklingar en meðferðarstæði (pláss) eru fyrir 36 sjúklinga á hverjum tíma. Undanfarið ár hafa dvalið á bráðamóttöku að meðaltali 20-30 sjúklingar sem bíða þess að komast á legudeild.“
Þetta segir í yfirlýsingu hjúkrunarráðs Landspítalans.
Þar er minnt á að samkvæmt hlutaúttekt Landlæknisembættisins, frá 8. janúar 2019, eru sjúklingar með flókin vandamál, aldraðir einstaklingar og sjúklingar í einangrun þeir sem bíða hvað lengst eftir innlögn. „Þessir sjúklingar eru oft með alvarleg heilsufarsvandamál sem krefjast mikils eftirlits og umönnunar.“
Það er ekki bara að mun fleiri leiti til bráðamóttöku.
„Meðaldvalartími innlagðra sjúklinga á bráðamóttöku lengist stöðugt og er nú um 24 klukkustundir. Viðmið bráðamóttöku samkvæmt gæðavísi er að sjúklingar dvelji þar ekki lengur en 6 klukkustundir. Rannsóknir sýna að óþarflega löng dvöl á bráðamóttöku getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjúklinga. Ein megin orsök þessa lengda dvalartíma á bráðamóttöku er að deildir hafa þurft að loka legurýmum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Á lyflækningasviði eru 13% legurýma lokuð og 21% á skurðlækningasviði, samtals 33 legurými.“
Sýnilega er þetta ófremdarástand. Hvað er til ráða?
„Viðunandi mönnun hjúkrunarfræðinga er grundvallarforsenda þess að Landspítali geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Til að ná fram viðunandi mönnun er nauðsynlegt að bæta kjör og starfsumhverfi þessarar lykilstéttar. Hjúkrunarráð Landspítala skorar á samningsaðila í komandi kjaraviðræðum að hafa að leiðarljósi þá alvarlegu stöðu sem skapast hefur vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Nauðsynlegt er að leitað verði allra mögulegra leiða til bæta kjör og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga.“