Stjórnsýsla „Ég man aldrei eftir því að kostnaðarmat hafi fylgt lagafrumvörpum sem lúta að sameiningu ríkisstofnana. Það eru gríðarleg bein áhrif í formi útsvarsgreiðslna og aftur margfeldisáhrif þar sem íbúar bera kostnaðinn!“ Þetta skrifar Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, á Facebooksíðu sína og birtir þar samtímis eftirfarandi kafla úr sveitarstjórnarlögum:
„129. gr. Kostnaðarmat.
Ef fyrirsjáanlegt er að tillaga að lagafrumvarpi, tillaga að stjórnvaldsfyrirmælum eða aðrar stefnumarkandi ákvarðanir af hálfu stjórnvalda ríkisins muni hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög skal fara fram sérstakt mat á áhrifum þeirra á fjárhag sveitarfélaga. Viðkomandi ráðherrar bera ábyrgð á því að slíkt mat fari fram. Þegar mat á fjárhagslegum áhrifum tillögu að lagafrumvarpi, tillögu að stjórnvaldsfyrirmælum eða annarra stefnumarkandi ákvarðana, sbr. 1. mgr., liggur fyrir skal það þá þegar lagt fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga til umsagnar. Mat á fjárhagslegum áhrifum á sveitarfélög samkvæmt þessari grein skal liggja fyrir áður en frumvarp er afgreitt úr ríkisstjórn til framlagningar á Alþingi eða áformuð stjórnvaldsfyrirmæli eða aðrar aðgerðir af hálfu stjórnvalda eru endanlega ákveðnar. Verði ágreiningur um niðurstöðu kostnaðarmats á lagafrumvarpi skal gerð sérstök grein fyrir því í kostnaðarumsögn sem skal fylgja frumvarpi þegar það er lagt fyrir Alþingi. Verði ágreiningur um niðurstöðu kostnaðarmats tillögu að stjórnvaldsfyrirmælum eða annarra stefnumarkandi ákvarðana af hálfu stjórnvalda ríkisins skal niðurstaða um það koma fram í endanlegu kostnaðarmati þeirrar ákvörðunar, sbr. 3. mgr. Ráðuneyti sveitarstjórnarmála skal árlega taka saman yfirlit um kostnaðarmat samkvæmt þessari grein, þar á meðal um ágreining um slíkt mat. Formlegar viðræður skulu fara fram um yfirlitið og niðurstöður þess í samstarfsráði skv. 128. gr.“