Hver fjölskylda sem fellur í þær horfir fram á áhyggjur, kvíða og skert lífsgæði.
„Hversu mikilli orku hefur ríkisstjórnin eytt í að ganga á eftir hverri einustu kröfugerð Samtaka atvinnulífsins? Hversu mikið af almannafé hefur farið til atvinnurekenda til að segja upp starfsfólki þegar við hefðum allt eins getað gefið almenningi féð til að tryggja öllum lífsviðurværi og styrkja hagkerfið innan frá?“
Þetta sagði Halldóra Mogensen á Alþingi í dag.
„Í staðinn voru efnahagslegu aðgerðirnar fyrir fólkið í landinu lagðar upp þannig að þær skyldu vera sem þrengstar og afmarkaðastar til að koma í veg fyrir of mikil útgjöld. Grunnhugsunin, sérstaklega þegar kom að aðgerðum í þágu launafólks, var að skilyrðin yrðu ströng og kerfið stíft til að draga úr aðsókn. Áhrifin eru óumflýjanlega þau að fólk fellur á milli, í glufurnar, og hver fjölskylda sem fellur í þær horfir fram á áhyggjur, kvíða og skert lífsgæði,“ sagði hún.
„Nú hefur kallið komið frá því einkafyrirtæki sem á í hvað beinustu talsambandi við ráðherra ríkisstjórnarinnar, Icelandair,“ sagði Halldóra.
„Nú er ljóst að öll úrræðin hingað til hafa ekki dugað þó að sum þeirra hafi verið sérhönnuð fyrir fyrirtækið og beina aðkomu ríkisins þarf til að bjarga því. Nú á að veita ríkisábyrgð á lánalínu, allt að 16,5 milljörðum kr., og sú upphæð er ofan á alla þá milljarða sem þegar hafa farið til félagsins í gegnum ríkissjóð með hlutabótaleiðinni, uppsagnarstyrknum og öðrum aðgerðum. Lánveitandinn verður banki í ríkiseigu og íslenska þjóðin í sjálfskuldarábyrgð. Og hvað fær ríkið fyrir þessa notkun á almannafé? Ekki hlut í félaginu. Það telur fjármálaráðherra óeðlileg afskipti ríkisins, jafnvel þó að nágrannaþjóðir okkar margar eignist nú hluti í sínum flugfélögum.“