- Advertisement -

Hafa ekki fengið launin greidd í tvo mánuði

Vilhjálmur Birgisson skrifar:

Ég verð að leiðrétta þessa frétt, enda er hún kolröng. Það er enginn starfsmaður komin á atvinnuleysisbætur, hið rétta er að margir hafa skráð sig atvinnulausa, en þeirra réttur skapast ekki fyrr en uppsagnarfrestur starfsmanna er útrunninn og/eða fyrirtækið fer í gjaldþrot.

Hið rétt er að staða starfsfólks Ísfisks er skelfileg og hún er ömurleg, en fólkið hefur ekki fengið nein laun greidd i rúma tvo mánuði fyrir utan 50.000 kr. inn á greiðslu fyrir um hálfum mánuði síðan eða svo.

Á meðan engjast starfsmenn um launalausir.

Þessi staða er alls ekki boðleg stundinni lengur og hefur Verkalýðsfélag Akraness komið þeim skilaboðum ítrekað á framfæri við forsvarsmenn fyrirtækisins.

Verkalýðsfélag Akraness hefur einnig tilkynnt að félagið sé tilbúið að lána öllum starfsmönnum 250.000 krónur með veði í launakröfu sem félagið mun gera fyrir starfsmenn vegna vangreiddra launa á Ábyrgðarsjóðlauna, en sú lánveiting getur ekki átt sér stað fyrr en fyrirtækið færi í gjaldþrot. En þetta er sama leið og VR gerði fyrir félagsmenn sína sem störfuðu hjá WOW air þegar það varð gjaldþrota.

Því miður hefur ítrekað verið dregið að lausn sé að koma á fjárhagsmál fyrirtækisins og alltaf er verið að biðja um lengri frest til að redda fjármálunum. Margoft hefur verið sagt að þetta muni skýrast þennan dag eða þennan og svo gerist ekkert!

Á meðan engjast starfsmenn um launalausir, enda hafa þeir ekki hafa fengið laun sín greidd í rúma 60 daga og meðan ekkert gerist þá á eiga starfsmenn ekki rétt á atvinnuleysisgreiðslum og félagið getur ekki lánað þessar 250.000 krónur því veð í kröfur á Ábyrgðarsjóðslauna er ekki til staðar þar sem fyrirtækið hefur ekki verið lýst gjaldþrota.

Þetta er algerlega óboðlegt og ef fyrirtækið er að leita leiða til að rétta af fjárhag fyrirtækisins þá er það algert skilyrði að launagreiðslum til starfsmanna verði komið tafarlaust í lag.

Ég alla vega sætti mig ekki við framsetningu á þessari frétt eins og það sé bara „allt í fínu lagi“ þar sem fólkið sé komið á atvinnuleysisbætur, þegar hið rétta er að það er búið að vera launalaust og fast í viðjum óvissunnar á meðan fyrirtækið leitar leiða til að uppfylla skilyrði fyrir lánveitingu frá Byggðastofnun.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: