Þröstur Ólafsson skrifaði:
„Ég man jákvæð viðbrögð þegar seinni ríkisstjórn Katrínar Jak. sameinaði orkumál og umhverfismál í sama ráðuneytinu. Nú gæti umhverfisráðherra ekki blokkerað ákvarðanir orkumálaráðherra lengur. Snjöll lausn fyrirvaralítilli virkjunarstefnu,“ skrifaði Þröstur Ólafsson hagfræðingur.
„Meðan þessi tvö ráðuneyti, sem bæði voru forsendur frekari virkjana, voru á hendi tveggja ráðherra voru líkur á að þetta grundvallar lýðræðislega stjórntæki um ‘checks and balances’ myndi getað hindrað stórslys á náttúru landsins. Eftir að þetta mikilvæga prinsipp var gert óvirkt með öll völd á einni hendi, virðist stjórnsýslulegur framgangur frekari virkjana vera beinn og breiður. Enda ætlar nýr horskur orkumálaráðherra að láta hendur standa fram úr ermum. Svo einbeittur er ráðherrann að kærumál út af Hvammsvirkjun sem fékk undirtektir hjá kærunefnd fær ekki réttmæta málsmeðferð fyrir dómi. Koma á í veg fyrir það með hraðsoðinni lagasetningu! Einhvern tíma hefði þetta þótt saga til næsta bæjar.
Nú hefur tekist að magna upp enn eitt átaksæðið hérlendis, ógnar virkjanaþörf vegna æpandi orkuskorts. Skortur á grænni orku er óendanlegur. Á hann að ráða frekari virkjanaþörf ?? Öll vitum við hvað hefur gerst áður fyrr þegar fyrrnefnda hugarfóstur ná tökum á framtaks- og framfara einbeittum landsmönnum. Sennilega er það borin von að ætlast til þess að þjóðin vilji læra mikið af reynslu fortíðar. Afar fáir íslenskir stjórnmálamenn hafa lengra útsýni en til næstu kosninga.“