Það er löngu kominn tími til að taka Póstinn heim; gera hann hluta af innviðauppbyggingu nýs samfélags.
Gunnar Smári skrifar:
Pósturinn var stofnaður til að halda utan um almannaþjónustu, að koma bréfum milli fólks. Á þessari þjónustu gátu einstaklingar byggt samskipti sín og fyrirtæki aukin viðskipti. Pósturinn er þannig innviðir eins og aðrar veitustofnanir. Svo kom Internetið og mikið af þeim samskiptum sem áður fóru fram bréfleiðis fluttu yfir á Netið; fyrst lítið, svo hægt en loks hratt. Póstsamgöngur voru ekki eins mikilvægar og fyrr.
En með tímanum efldi Netið ekki aðeins samskipti heldur verslun með vörur og þjónustu. Netið varð vettvangur fyrir ný fyrirtæki og umbreyttan rekstur, það skapaði tækifæri til að bjóða nýjar vörur eða ódýrari, vöru sem hafði of dreifða eftirspurn til að standa undir verslun á tilteknum stað o.s.frv. Verslun í netheimum er annars konar en í raunheimi. Auðvitað varð Netið margt annað líka og ógeðfelldara, meðal annars vettvangur fyrir gríðarlega samþjöppun í kringum fá risafyrirtæki sem löngu er orðið tímabært að brjóta upp. Eftir sem áður er Netið líka vettvangur nýsköpunar og smáreksturs, pláss fyrir fólk að bjóða upp á eitthvað nýtt og öðruvísi, akur fyrir eitthvað annað en það sem hin stóru og voldugu hafa náð undir sig. Hagkvæmni Netsins lækkar stofnkostnað nýrra fyrirtækja, hvort sem þau eru sjálfstæður rekstur einstaklings, fjölskyldufyrirtæki eða samvinnufyrirtæki fárra.
En aukin verslun á Netinu kallar á innviði sem tryggt getur samkeppni þar, tryggt að stærstu fyrirtækin stjórni ekki dreifileiðinum í raunheimi eins og þau gera á vefnum og geti þar með varið sig fyrir samkeppni, byggt upp einokun og mergsogið með henni samfélagið. Í þessum veruleika er Pósturinn jafn mikilvægur og fyrir hundrað árum. Hann ætti að vera þeir innviðir sem tryggja að Netið virki fyrir samfélagið, að á Netinu geti fólk og fyrirtæki boðið vörur á jafnræðisgrundvelli og byggt þar upp nýja þjónustu með því að selja nýjar vörur. Lýðræðisvæðingu Netsins þar sem öllum er tryggður jafnt aðgengi og þeim ríku ekki gert fært að stjórna því hvað fólk sér og heyrir ætti að fylgja eftir með félagslegum dreifileiðum sem væru vörn gegn einokun.
Þetta hefur lengi verið hugmyndin á bak við innviðauppbyggingu í okkar heimshluta; hún færir ekki aðeins fólki þægilegra líf heldur minnkar aðstöðumun stærri og smærri fyrirtækja. Gjaldtaka fyrir innviði vinnur á móti þessum áhrifum. Innviðir byggðir upp af skattheimtu, þar sem hin stóru fyrirtæki og auðugasta fólkið greiðir mest, færa þannig gæði frá þeim sem auðgast hafa af stöðu sinni í samfélaginu út til samfélagsins alls. Þetta er grunnhugmynd New Deal Roosvelt, sem í dag, á tímum nýfrjálshyggjugeðveikinnar, virkar eins og argasti kommúnismi, en var í raun líftrygging kapítalistana, framlengdi kapítalismann fram á eftirstríðsárin. Hin ríku launuðu almenningi lífgjöfina með því að efna til gagnbyltingar sem kölluð hefur verið nýfrjálshyggja. Eitt af markmiðum hennar er yfirtaka einkafyrirtækja á innviðum og opinberum rekstri. Útþensla kapítalistana er ekki að byggja upp nýja þjónustu eða búa til nýjar vörur heldur að ná undir sig því sem áður var byggt upp með samtakamætti almennings. Heimskuleg saga Póstsins síðustu áratuga er hluti þess markmiðs.
Pósturinn, sem eitt sem var hluti af ágætri stofnun, Pósti og síma, var breitt í eitt opinberu hlutafélögum (fyrirtæki í opinberu eigu sem reka á eins og væru þau einkafyrirtæki í eigu eiganda sem krefst aðeins aukins arðs af rekstrinum, er hjartanlega saman um samfélagsleg áhrif hans) og hefur síðan verið rekið stefnulaust, ýmist í heimskulegri útþenslu eða grimmum samdrætti. Og hvor leiðin sem var farin, þá versnaði þjónustan og viðmótið og gjöldin hækkuðu. Rólyndasta fólk roðnar í andliti, æsist upp og verður skrækróma þegar það rifjar upp samskipti við þetta fyrirtæki. Hér á þessu heimili hefur verið fylgst með pakka sem hefur hringsólað um bæinn í heila viku án þess að rata á áfangastað.
Það er löngu kominn tími til að taka Póstinn heim; gera hann hluta af innviðauppbyggingu nýs samfélags. Einkavæðing innviða á nýfrjálshyggjuárunum var ekki bara heimskuleg heldur stór skaðleg; eyðilagði þær stofnanir sem fyrri kynslóðir höfðu byggt upp og girti fyrir að uppbyggingin héldi áfram til að mæta breyttri tækni og nýjum þörfum.
Hættum þessu rugli, hættum að gefa hinum ríku samfélagið okkar sem leiktæki og byrjum sem fyrst á að byggja upp gott réttlátt samfélag fyrir alla.