„Verkalýðsrekendur telja margir hverjir að skjólstæðingum sínum sé best borgið með því að hatast við fyrirtæki og atvinnurekendur. Hagnaður og arður er afrakstur af glæpastarfsemi. Þó er það svo að fyrirtæki sem hafa hagnaðarmarkmið hafa einnig getu til að greiða laun,“ skrifar Vilhjálmur Bjarnason, sem berst nú fyrir betra sæti á lista Sjálfstæðisflokksins, fyrir komandi kosningar.
Vilhjálmur stígur þarna um borð í herskip Samtaka atvinnulífsins. Herskip sem er ætlað að vega illa að forystu launafólks.
„Hið eiginlega auðmagn er nú í fárra höndum, það er að segja stjórnarmanna í lífeyrissjóðum. Stjórnarmenn lífeyrissjóða eru bundnar af sömu lögmálum og stjórnarmenn í fyrirtækjum. Stjórnarmenn í lífeyrissjóðum eiga aðeins að gæta hagsmuna sjóðfélaga varðandi lífeyri,“ skrifar þingmannsefnið.
Þrátt fyrir allt og allt segir Vilhjálmur: „Vitfirrtir menn hafa sagt í þingræðum að það sé samfélagsleg skylda lífeyrissjóða að standa undir hagvexti í landinu.“
Þetta er eflaust rétt. Sparipeningar fólks eru ekki þannig. Þá á ekki að brenna á báli.
Freistandi er að skilja næsta kafla sem harða árás á það fólk sem lagði ofur áherslu á að launafólk hætti sínum peningum í vafasaman rekstur Icelandair.
„Hættulegastir af öllum eru skuggastjórnendur í lífeyrissjóðum. Þeir haga sér á þann veg, að hin eiginlega stjórn sem á að vera sjálfstæð í störfum sínum er þvinguð til annarlegrar niðurstöðu í málum, niðurstöðu sem er ætlað að tryggja óeðlilega hagsmuni. En hagsmuni hverra? Það er ekki alltaf augljóst. En víst er að það eru ekki hagsmunir sjóðfélaga.“
Nú verða sumir að taka þessa sneið til sín. Fyrstur kemur Halldór Benjamín Þorbergsson upp í hugann. Vel gert Vilhjálmur.