- Advertisement -

„Hættulegar tegundir myglu og varasamar sveppategundir“

„Skólahúsnæðið er heilsuspillandi og ábyrgðin er borgarstjórnarmeirihlutans“

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks harma þau alvarlegu og viðvarandi vandamál sem upp hafa komið í húsnæði Fossvogsskóla. Foreldrar barna í skólanum hafa nú staðið í ágreiningi við Reykjavíkurborg yfir þriggja ára tímabil um heilsuspillandi ástand skólahúsnæðisins. Yfir lengri tíma hafa börn og starfsfólk upplifað alvarleg veikindi sem að líkum má rekja beint til ástandsins. Það er frumskylda borgarinnar að tryggja sérhverju grunnskólabarni heilnæmt skólahúsnæði. Sú frumskylda hefur ekki verið uppfyllt. Þrátt fyrir umfangsmikil fjárútlát við endurbætur skólans hefur viðeigandi árangri ekki verið náð.“

Þetta er að finna í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Þetta er ekki allt:

„Niðurstöður Náttúrufræðistofnunar Íslands og minnisblöð Verkís sýna að enn finnast hættulegar tegundir myglu og varasamar sveppategundir í skólahúsnæði Fossvogsskóla. Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar kemur fram að í húsnæðinu finnist verulega eitruð efni sem jafnvel geti reynst krabbameinsvaldandi. Niðurstöður þessar lágu fyrir í desember 2020 en voru ekki birtar á vef Reykjavíkurborgar fyrr en í lok febrúar 2021. Niðurstöðurnar hafa ekki verið kynntar foreldrum og heildarskýrslan hefur ekki verið birt opinberlega. Foreldrar hafa sýnt fádæma þolinmæði og verið samvinnufúsir um lausnir. Þolinmæðin virðist þó eðlilega að þrotum komin. Skólahúsnæðið er heilsuspillandi og ábyrgðin er borgarstjórnarmeirihlutans. Börn eiga ávallt að njóta vafans og þeim verður undir öllum kringumstæðum að tryggja heilnæmt skólahúsnæði. Lausn málsins þarf að setja í forgang.“

Meirihlutinn var ekki sáttur og bókaði:

„Húsnæðismál Fossvogsskóla hafa verið í umræðunni vegna myglu sem fannst í skólanum og hefur mikil vinna verið lögð í að gera upp þá hluta skólans þar sem voru skemmdir vegna raka. Nýjasta sýnataka frá því í desember sem kynnt var á dögunum leiddi í ljós að þörf var á frekari aðgerðum varðandi frágang í rakasperru, hreinsun o.fl. og er þeim verkáfanga lokið. Næstu skref verða að taka frekari sýni til að ganga úr skugga um að þær hafi skilað tilætluðum árangri. Samhliða þarf að huga að líðan þeirra barna sem hafa fundið fyrir einkennum og fara í gegnum leiðir til að mæta sem best þeirra þörfum í samstarfi við forráðamenn þeirra. Þau samskipti standa yfir og verður fram haldið þar til viðeigandi lausnir liggja fyrir. Fulltrúar meirihlutans ítreka mikilvægi þess að tryggja börnum og starfsfólki heilsusamlegt umhverfi og leggja áherslu á að áfram verði unnið að því að komast til botns í þessu máli þangað til það er tryggt.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: