Eðlilega stýrir Mogginn baráttunni fyrir lækkun veiðigjalda. Í leiðara Moggans í dag segir:
„Morgunblaðið ræddi í gær við nýjan bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, Írisi Róbertsdóttur, sem benti á mikilvægi sjávarútvegsins fyrir samfélagið í Eyjum, íbúana jafnt sem bæinn sjálfan.“
Það er nú það. Ekki er annað að sjá en sjávarútvegurinn geri meira en að skrimta þrátt fyrir veiðigjöldin og sama er að segja um byggðina og mannífið í Eyjum. Svo því sé til haga haldið er það Reykjavík, og þá Reykvíkingar, sem borga mest í veiðigjöld.
Gefum Davíð orðið:
„Íris hefur áhyggjur af álögum ríkisins á samfélagið í Eyjum: „Útgerðarfyrirtækin í Eyjum voru á fiskveiðiárinu sem lauk 1. september sl. að borga vel yfir einn milljarð króna í veiðigjöld, sem er nærri tvöföldun frá árinu á undan. Þessir peningar væru betur komnir hér í Eyjum, þar sem þeir urðu til, en í ríkishítinni. Þennan landsbyggðarskatt verður að lækka og breyta aðferðafræði við álagninguna. Við treystum á að ríkisstjórnin og Alþingi standi við þau loforð í þessum efnum sem gefin voru í vor. Enn sem fyrr erum við í efnahagslegu tilliti auðvitað fyrst og fremst háð sjávarútvegi og þjónustu við hann.““
Það er þetta með ríkishítina. Það er einmitt hún, það er hítin, sem rekur samfélagið, sjúkrahúsin, menntunina og allt hitt klabbið. Þar á meðal Herjólf.
Yfir til þín Davíð: „Svipaða sögu má segja um fleiri bæi og byggðir úti um landið. Það gleymist oft í umræðunni um sjávarútveg og sérstaka skatta á hann hve gríðarlega mikilvægur hann er fyrir byggðirnar í landinu. Án sjávarútvegsins yrði landsbyggðin ekki svipur hjá sjón og háar álögur á þessa grein umfram aðrar hefur mikil áhrif á landsbyggðina og flytur fé í óeðlilegum mæli frá byggðum landsins í ríkissjóð. Þess vegna eru veiðigjöldin réttilega nefnd landsbyggðarskattur og meðal annars af þeirri ástæðu er brýnt að stjórnvöld standi við það að laga veiðigjöldin með því að létta þessum sérstöku álögum af landsbyggðinni.“
Þarna er látið sem að ef veiðigjöldin verði ekki lækkuð leggist sjávarútvegur af. Svo er alls ekki og ber að hafa í huga. Og enn skal ítrekað að veiðigöldin eru ekkert fremur landsbyggðarkattur en annar skattur. Einsog sjá má í meðfylgjandi frétt.