Samfélag „Það er líka athyglisvert, Markús, að Karl Axelsson er ennþá skráður í Hlutafélagaskrá fyrir 9,4% hlut í LEX, einni stærstu lögfræðistofu landsins. Það hlýtur að teljast forréttindi þegar maður leitar til lögmanna stofunnar að vita að þeir eru með sinn mann í Hæstarétti,“ segir meðal annars í grein Kára Stefánssonar, sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Greinin er opið bréf til Markúsar Sigurbjörnssonar forseta Hæstaréttar.
Kári tapaði máli fyrir Hæstarétti, máli sem hann höfðaði gegn Karli Axelssyni. Kári hafði fengið Karl til að gæta réttar síns í dómsmáli. Á reikningi frá lögmannsstofu Karls, LEX, kom fram að fulltrúi Karls hafði unnið mest af vinnu og Karl í raun sáralítið. Þetta var Kári ósáttur við, taldi sig hafa fengið Karl Axelsson til verka, en ekki fulltrúann.
„Að því sögðu er fullt eins líklegt að dómurinn hafi verið réttur og sjálfsagt að ég greiði fyrir vinnu manns sem ég hef aldrei leitað til og þekki að öðru en því að hafa gott bros og spila á píanó,“ skrifar Kári.
Kári finnur að hvernig hæstiréttur var skipaður í málinu, en sökum þess að á meðan mál hans gegn Karli Axelssyni var í dómsmeðferð var Karl skipaður hæstaréttardómari. Dómurinn var ruddur, gegn vilja Kára, og þrír skipaðir til að dæma í málinu. „…enginn þeirra sem dæmdu hefur þótt verðugur þess að sitja í Hæstarétti þótt enginn þeirra hafi verið úskurðaður óhæfur til þess heldur. Tveir þeirra hafa sótt tvisvar um embætti hæstaréttardómara en hvorugur fengið.“
Kári segir að dóminn hafa verið efnisrýrann og finnur að helstu röksemdir í honum styðji við lögmannnalög en að hans mati hefði frekar átt að brúka neytendalög, þau eru yngri.
„Réttarkerfið á að sjá til þess að við séum öll jafningjar að lögum en það er alveg ljóst þegar rýnt er í sögu þessa máls að það er ákveðinn hópur í íslensku samfélagi sem fyrir augum réttarkerfisins samanstendur af þeim sem eru meiri jafningjar en aðrir. Þessi hópur er kallaður lögmannastétt.“