Páll Valur Björnsson, fyrrum þingmaður Bjartrar framtíðar, nú varaþingmaður Samfylkingarinnar, skipar bekk Alþingis þess vikuna.
„Enn ömurlegra er þó að jafnvel inni á Alþingi og í embættismannakerfinu skuli vera fólk sem vill mæta þessu ógæfusama fólki með stálhnefa,“ sagði hann meðal annars í ræðu sem hann hélt í dag, þegar rætt var um störf þingsins.
„Þessa vikuna sit ég á Alþingi sem varaþingmaður og eru tvö og hálft ár síðan ég sat hér síðast. Það hefur verið mjög athyglisvert að fylgjast með störfum þingsins þau ár og allri umræðunni í samfélaginu um þau störf. Óhætt er að segja að sitt sýnist hverjum. Mér finnst umræðan allt of oft einkennast af þjóðrembu og neikvæðni, sérstaklega gagnvart minnihlutahópum, fólkinu sem mest þarf á því að halda að njóta skilnings, virðingar og verndar.
Einn þessara hópa eru hælisleitendur sem hingað leita skjóls úr skelfilegum aðstæðum í von um betra líf fyrir sjálfa sig en þó sérstaklega í von um að börn þeirra fái betri tækifæri en vont stjórnarfar, átök og ofbeldi, spilling og fátækt hafa veitt þeim heima fyrir.
Virðulegur forseti. Orðræðan um þennan viðkvæma hóp á samfélagsmiðlum og í samfélaginu er oft ömurleg. Enn ömurlegra er þó að jafnvel inni á Alþingi og í embættismannakerfinu skuli vera fólk sem vill mæta þessu ógæfusama fólki með stálhnefa. Það er mikið verk að vinna við að efla traust á Alþingi og stjórnsýslunni allri. Til þess að það megi gerast verðum við að geta treyst því að kjörnir fulltrúar og embættismenn standi við drengskaparheit sitt og látið sér annt um og verji hagsmuni allra þjóðfélagshópa samfélagsins, sama hvaðan þeir koma.
Höfum það hugfast að orð eru til alls fyrst og verstu illvirki og ofbeldisverk mannkynssögunnar spruttu upp úr orðum sem voru gegnsýrð af fordómum, hatri og lygi. Sú saga mun örugglega endurtaka sig ef við höfum ekki rænu á eða kjark til þess að standa vörð um mannréttindi og siðlegt samfélag.“