Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur skilað umsögn um fjármálaáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Bjartarar framtíðar og Viðreisnar.
„Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ber augljós merki hægrimanna þar sem áherslan er lögð á aðhald umfram þörf og samfélagsleg verkefni látin sitja á hakanum. Erfitt er finna málaflaflokk sem ekki er veruleg þörf á að bæta í ef frá er talið stjórnarráðið sjálft.
Áætlunin ber einnig merki hugsunarleysis þar sem skattar eru hækkaðir á eina atvinnugrein sem glímir við ýmis vandamál í rekstri en skattalækkun boðuð almennt sem á þennslutímum hefði einhvern tíma þótt varhugavert.
Hvað varðar umfjöllunarefni þessarar nefndar þá er það gríðarleg vonbrigði að ekki er gert ráð fyrir því að mæta fjárþörf samgangna sem þó er brýnasta verkefni dagsins. Þá er ekki gerð tilraun til að laga það ósamræmi sem er á milli samgönguáætlunar og fjármálaáætlunar með viðbótar fjármunum í samgöngumál. Þá er ljóst að í umhverfismálum er tékkinn innistæðulaus jafnvel þótt að sex ráðherrar hafi undirritað samkomulag um áætlun í loftlagsmálum. Ekki er að sjá að gert sé ráð fyrir nauðsynlegum fjármunum til að taka á þeim vanda sem þar blasir við af neinni alvöru.
Vandi ríkisstjórnarinnar er heimatilbúinn því markmið stjórnarinnar um að skila 1.5% afgangi af fjárlögum á sama tíma og 2% aðhald er boðað takmarkar mjög svigrúm til að fara í nauðsynleg verkefni.
Í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar voru þessar tölur lægri , afgangur átti að vera 1% svo dæmi sé tekið, til að hafa aukð svigrúm til útgjalda.
Þetta ½ prósent sem nú er bætt við er líklega á milli 10-12 milljarðar króna sem nýta mætti í umhverfismál og samgöngur svo dæmi sé tekið.
Það er skoðun undirritaðs að til að bregðast við bráðri þörf ætti að lækka kröfuna um afgang af fjárlögum um amk. ½ prósentustig. Utan höfuðborgar-svæðisins er vart að finna þennslu nema ef vera skildi á suðurlandi. Nýta mætti fjármunina í verkefni á landsbyggðinni þar sem ekki er þennsla og takmarka þannig hættuna sem fylgir of mikilli þennslu.
Undirritaður gerir það að tillögu sinni að fjárlaganefnd breyti fjármálaáætluninni með þeim hætti að afgangur og aðhald verði minnkað og þeir fjármunir sem þá verða til skilgreindir í verkefni á landsbyggðinni.“