Gunnar Smári skrifar:
Hermann Guðmundsson framkvæmdastjóri var annar fulltrúi hægrisins í Silfrinu, kynnti sig sem lærisvein Warren Buffet, mann sem sæi stóru myndina. Hermann talaði eins og hann væri ekki alveg á flokkslínunni, gagnrýndi stefnu hins opinbera (sem hefur að mestu verið stýrt af Sjálfstæðisflokknum marga undanfarna áratugi) í mörgum málum. Þegar kom að kvótanum hrökk hann hins vegar inn á flokkslínu, eftir að hafa getið um ýmsa galla núverandi kerfis sagði hann að stjórnvöld og útgerðarmenn yrðu að setjast niður, móta framtíðarstefnu sem samstaða gæti myndast um og kynna landsmönnum.
Þetta lýsir hugmyndum Sjálfstæðisflokksfólks um samfélagið. Eigendur stórfyrirtækja eru þar kjarni samfélagsins og ber að móta stefnuna í samráði við stjórnmálastéttina, sem er að mestu saman sett úr þjónum auðvaldsins. Það er þessi afstaða sem aðgreinir hægri öfgafólk frá venjulegu fólki. Hægri öfgafólk telur að við búum í verstöð hinna ríku, að ekkert eigi að gera nema það sem þau óskar sér helst. Og ef það leiðir dauða yfir byggðir og brýtur niður samfélög þurfum við að leita til hinna ríku og biðja þau að endurskoða afstöðu sína, kanna hvort þau vilji kannski milda aðeins dauðatök sín á samfélaginu, halda áfram að nauðga því en kannski ekki jafn ofbeldisfullt og nú.