„Þrátt fyrir það gerist það ár eftir ár að í þessum þætti hallar verulega á hægrimenn. Og þetta er ekki eini þátturinn hjá Ríkisútvarpinu sem hallar sér hiklaust til vinstri án þess að stjórnendur stofnunarinnar geri nokkuð til að hindra lögbrotið. Hvernig stendur á því að þáttargerðarmenn Ríkisútvarpsins komast upp með svona lögbrot? Og hvernig stendur á því að stjórnendur stofnunarinnar gera það?“
Líklega er það Davíð Oddsson sem skrifar þetta í Staksteina dagsins.
Þar segir að í nýjasta hefti Þjóðmála sé sagt frá hvernig umræðuþátturinn Silfrið velur gesti í þann hluta þáttarins þar sem rætt er um það sem er efst á baugi í þjóðfélagsumræðunni hverju sinni.
„Skemmst er frá því að segja að ríflega helmingur viðmælenda er af vinstri kanti stjórnmálanna, 52%, og verður það raunar að teljast vantalið, enda eru sem dæmi tvær heimsóknir Þórðar Snæs Júlíussonar af Kjarnanum í þáttinn ekki flokkaðar á hið pólitíska litróf og hið sama má segja um heimsókn fréttamannsins Helga Seljan.“
Meira um flokkun hægri manna:
„Þeir sem Þjóðmál flokka hægra megin stjórnmálanna fá aðeins þriðjung þess tíma sem vinstri menn fá í þættinum, eða 17%. Miðjumenn, 19%, og óflokkaðir, 12%, fylla afganginn. Ríkissjónvarpinu ber ekki aðeins siðferðileg skylda til að gæta sanngirni og hlutlægni, skyldan er beinlínis skráð í lög.“
Ekki er víst að allt og allir séu sammála þessum dilkadrætti hægri manna.