Hægri menn eyðilögðu verkamannabústaðakerfið
- hefði það fengið að starfa áfram væru þar nú tuttugu þúsund íbúðir.
„Ætla má að ríflega 13 þúsund íbúðir hafi verið í verkamannabústaðakerfinu þegar það var lagt af og þeim sem þar bjuggu gefin kostur á að kaupa íbúðirnar með láni á markaðskjörum. Þegar í byrjun lenti þorri kaupenda í vanda með greiðslubyrði þessara lána – þrátt fyrir að hafa fengið að eignast verulegan eignarhlut – og kannanir Hagstofu Íslands sýna að greiðsluvandi þessa hóps hófst þegar árið 2004 en ekki í kjölfar hrunsins,“ þetta kemur fram í 1. maí ávarpi Gylfa Arnbjörnssonar, forseta Alþýðusambandsins.
Hann segir engann vafa vera á því; „…að ef verkamannabústaðakerfið hefði fengið að þróast áfram í friði fyrir pólitískri þröngsýni hægri aflanna væru um 20 þúsund íbúðir í þessu kerfi í dag og aðstæður bæði tekjulægri fjölskyldna og ungs fólks allt aðrar og betri. Nú er svo komið að ungt fólk sem ekki hefur sterkt fjárhagslegt bakland á litla sem enga möguleika á að hefja búskap. Tekjulágar fjölskyldur þurfa að nota allt að helmingi tekna sinna til að greiða leigu og búa samt við mjög mikið húsnæðisóöryggi. Verulegur skortur er á húsnæði og bæði fasteignaverð og leiguverð eru í hæstu hæðum. Ástandið er grafalvarlegt og það mun ekki lagast nema að ráðist verði hratt og af festu í uppbyggingu á miklum fjölda hagkvæmra íbúða.“
Hér má sjá ávarp Gylfa.
-sme