Sjálfstæðismenn eru upphafsmenn nýrra vegaskatta. Tóku í raun yfir samgönguráðuneytið og snéru samgönguráðherranum um 180 gráður. Hann sem barðist manna mest gegn vegasköttum en fer nú að vilja Sjálfstæðisflokksins og berst nú fyrir því sem hann áður fordæmdi. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart.
Jón Gunnarsson, yfirsamgönguráðherra ríkisstjórnarinnar, mætir nú óvæntri andspyrnu. Yst frá hægri. Davíð Oddsson er á móti.
„Ríkið áætlar að skattleggja bifreiðareigendur um nær 50 milljarða króna á þessu ári. Meira en þriðjungur þeirrar fjárhæðar, um 18 milljarðar króna, á að fara til annarra mála en vegagerðar,“ skrifar hann í Staksteina dagsins.
„…staðan er hins vegar sú að flestir bifreiðareigendur eru skattlagðir af miklum þunga, bæði þegar þeir kaupa bíla og þegar þeir nota þá, en stór hluti skattanna fer í annað en vegi, þá er orðið mun hæpnara að leggja á veggjöld til almennrar uppbyggingar vegakerfisins,“ bætir gamli foringinn við.
Davíð hefur fleiri athugasemdir við framgang Jóns og auðvitað Bjarna fjármálaráðherra
„Væri slíkum veggjöldum bætt við núverandi skatta á bifreiðareigendur, sem að stórum hluta fara til annarra verkefna en vegagerðar, þá væri erfitt að halda öðru fram en að í raun væri um aukna almenna skattlagningu að ræða.“
Davíð skellir ekki hurðum á þá kumpána. Skilur eftir rifu svo þeir geti, eftir sem áður, gengið í þeim takti sem hann slær:
„Verði aðrir skattar á bifreiðareigendur lækkaðir á móti og tryggt að bifreiðaskattarnir sem eftir væru færu allir í vegagerð væru hugmyndir um stóraukin veggjöld annars eðlis.“