„Það er ekki óþekkt að flokkar tilkynni að þessi eða hinn flokkurinn sé útilokaður til samstarfs. Það er hins vegar hvimleiður kækur og derringslegur. Helst er að skilja slíkt tal svo, að sá flokkur sem úthýst er, sé óralangt fyrir neðan virðingu þess sem hefur komið sér upp þessu afbrigði af einelti,“ stendur í Reykjavíkurbréfi Davíðs þessa helgina.
„Samfylkingin, systurflokkur Viðreisnar, tilkynnti á lokaspretti þingstarfanna að tveir flokkar væru útilokaðir til samstarfs af hennar hálfu. Þetta var sérstaklega athyglisvert, því að fram að því hafði hvergi komið fram að nokkur væri að sækjast sérstaklega eftir samstarfi við Samfylkingu,“ skrifar forsætisráðherrann fyrrverandi.
„Enda óljóst eftir hverju er þar að slægjast. Reyndar háttar svo til um systurflokkana tvo, að þeir hafa aðeins eitt mál í sínu farteski hvor. Og svo vill til að það er sama málið, þannig að systurflokkarnir tveir eru aðeins samanlagt með eitt mál til að leggja í púkk með öðrum flokkum. Þetta mál snýst um að leggjast til fóta hjá ESB og varla nokkur sála með viti hér á landi, og má sennilega hafa heiminn undir, sérstaklega að viðra sig undir bandalagið það,“ skrifar Davíð.
„Ekki er vitað hvað systurflokkunum gengur til, en svo að getið sé í eyður vilja þeir sjálfsagt tryggja að í framtíðar veirukrísu geti enginn séð um kaup á bóluefni nema ESB. Það gekk svo æðislega síðast. Stóri fréttnæmi atburðurinn að öðru leyti um þetta samband er að það gengu nærri 70 milljónir manna úr því á einu bretti og vegnar svo miklu betur eftir en áður. Allar spár um ógn og skelfingu gufuðu upp eins og dögg fyrir sólu daginn eftir að útgangan gekk í gildi. Og þó gerði hið fráskilda samband allt sem það gat til að gera útgönguna erfiða, sem það hafði engan rétt til að gera,“ skrifar Davíð.
Og svo þetta: „Vandinn fyrir slíka útilokunarflokka er að þeir fá ekki að njóta sinnar óskammfeilni og síns derrings, þegar svo háttar til að enginn flokkur á við þá alvarlegt erindi, enda það eina sem þeir hafa að bjóða er löngu komið út yfir síðasta söludag, súrt og kekkjótt.“