„Það er ekkert launungarmál að orðræðan er beinskeyttari og samskiptin líka. Það er heldur engin launung að ég gaf ekki kost á mér á sínum tíma þar sem ég taldi mig ekki geta staðið fyrir svona stefnu og framgöngu. Ég vildi nálgast hlutina öðruvísi og gerði það. Þetta kemur mér því ekkert á óvart,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, fyrrverandi forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Vísar hann í máli sínu til orðræðu og framkomu verkalýðsforingja.
Þetta er tekið úr viðtali Moggans við Gylfa.
Í Mogganum segir Gylfi að staðan á vinnumarkaði sé mjög snúin. Hún sé þó ekki óþekkt, en áhyggjuefni er að aðilar ræðist ekki við. „Það hefur alltaf verið talsamband milli samtakanna þannig að hægt sé að máta hugmyndir. Miðað við fréttir virðist svo ekki vera og það eitt og sér endurspeglar alvarleika stöðunnar,“ segir Gylfi.
Gylfa þóknast ekki það fólk sem tók við af honum í forystu samtaka launafólks. Hann nefnir hins vegar hvergi hina óvenju herskáu forystu Samtaka atvinnulífsins.