Vilhjálmur Birgisson skrifar:
Eins og flestir muna voru sjómenn í gríðarlega harðri kjaradeilu við útgerðarmenn árið 2016/2017 sem endaði með lengsta verkfalli í sögu ríkissáttasemjara.
Eitt af stóra ágreiningnum í þessari kjaradeilu var verðlagning á uppsjávarafla, en harður ágreiningur á milli sjómannaforystunnar og útgerðarmanna um verðlagningu á uppsjávarafla hefur verið lengi uppi þar sem sjómannaforystan hefur ítrekað sakað útgerðarmenn um stórfellt svindl og svínarí þegar kemur að því að verðleggja uppsjávarafla, en þessi ágreiningur lýtur að sjávarútvegsfyrirtækjum sem eru með veiðar og vinnslu á sömu hendi.
Það hefur lengi verið vitað að útgerðarfyrirtæki sem eru með veiðar og vinnslu á einni og sömu hendinni hafa nánast einhliða ákveðið það verðið sem þeir vilja greiða fyrir uppsjávarafla, en það hefur ætíð verið langt undir þeim verðum sem greitt er fyrir þessar afurðir t.d. í Noregi eða Færeyjum.
Þessi ágreiningur kom m.a. upp í síðustu kjarasamningum við sjómenn vegna þess að sjómenn hafa lengi talið og haft sterkan og rökstuddan grun um að útgerðarmenn sem hafa veiðar og vinnslu á sömu hendi séu ekki að fara eftir ákvæðum kjarasamnings sjómanna þar sem skýrt er kveðið á um að útgerðarmönnum beri ætíð að greiða hæsta gangverð fyrir fiskinn.
Vegna þessa vantrausts og tortryggni á milli sjómanna og útgerðarmann lagði ég, sem formaður Verkalýðsfélags Akraness, fram tillögu á samningafund hjá ríkissáttasemjara með útgerðarmönnum sem laut að því að skipuð yrði fjögurra manna óháð rannsóknarnefnd sem hefði það hlutverk að kanna verðlagningu á uppsjávarafla og kanna hví Norðmenn greiða langtum hærra verð til sinna sjómanna og á það við um allar uppsjávarafurðir þ.e.a.s. makríl, loðnu, síld og kolmunna.
Það er skemmst frá því að segja viðbrögð samninganefndar útgerðarmanna hafi nánast verið ofsafengin og var þessari tillögu snarlega hafnað og það með látum og fór þar fremstur í flokki sami aðili og bað Samherjamenn um ráð til að blekkja veiðiheimildir út úr Grænlendingum en hér er ég að tala um Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Hann gjörsamlega sturlaðist þegar ég lagði fram þessa „saklausu tillögu“ um að skipa óháða rannsóknarnefnd sem átti að hafa víðtækar heimildir til gagnaöflunar til að kanna hvort það væri rétt hjá okkur í sjómannaforystunni að útgerðarmenn væru að stunda stórfellt svindl á sjómönnum og þjóðinni um leið.
Ég sagði að þessi tillaga fæli í sér einstakt tækifæri fyrir útgerðarmenn að afsanna að okkar ásakanir ættu ekki við rök að styðjast, en nei viðbrögð Gunnþórs voru ofsafenginn og var tillögunni alfarið hafnað. En það liggur fyrir að þessir aðilar eru að svindla og svíkja ekki bara af sjómönnum heldur allri þjóðinni með því að greiða ekki sambærilegt verð og gert í Noregi og Færeyjum.
Ég vil rifja upp þegar ég lagði þessa tillögu fram en þá kom yfirlýsing frá SFS þar sem samtökin töldu að sjómannaforystan væri að leggja fram nýja kröfu, en það eina í þessari tillögu okkar var að fá á hreint hvort útgerðarmenn væru að svindla og svína á íslenskum sjómönnum og samfélaginu öllu með því að greiða minna fyrir afurðirnar en eðlilegt teljist.
Við í sjómannaforystunni töldum að hérna væri kjörið tækifæri fyrir útgerðarmenn að fá á hreint hvort þessar rökstuddu grunsemdir ættu við rök að styðjast eða ekki. Að skipa þessa óháðu nefnd kom ekki til greina af hálfu útgerðarmanna sem er og var óskiljanlegt.
Það sem hefur reyndar gerst er að Verðlagstofa skiptaverðs gaf út skýrslu á þessu ári um hver verðmunur á aflaverðmæti á makríl væri á milli Noregs og Íslands og kom fram að Norðmenn hafa greitt 226% meira að meðaltali fyrir makrílinn á tímabilinu frá árinu 2012 til 2018 en mesti munur var tæp 300% á árinu 2018.
Í þessari skýrslu frá Verðlagsstofu skiptaverðs kom fram af hverju Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað snappaði yfir þessari tillögu minni.
Þessi samantekt frá Verðlagsstofu er staðfesting á þessum rökstudda grun sjómanna sem klárlega má áætla að á umræddu tímabili hefi verið haft af sjómönnum laun sem nema allt að 10 milljörðum og af ríki og sveitarfélögum skatttekjum sem nema allt að 5 milljörðum
Hefja þarf opinbera rannsókn á verðlagningu á uppsjávarafla hér á landi tafarlaust, því það er ekki bara að það sé rökstuddur grunur um að þessir aðilar séu ekki bara að svíkja og svindla á erlendu grundu, heldur virðast þeir einnig ástunda það hér á landi líka