Þegar Gunnar Bragi Sveinsson var þingflokksformaður Framsóknar var hann einn mesti „stríðsmaður“ Alþingis. Talaði jafnvel lengst og oftast. Lengi vel hefur lítið fyrir honum farið. Í dag rís hann upp og baunar á Svandísi Svavarsdóttur í Moggagrein.
„Heilbrigðisráðherra lagðist lágt þegar greidd voru atkvæði aðfaranótt 21. apríl sl. þegar hún sakaði þingmenn um að rjúfa „samstöðu“ þegar frumvarp hennar um sóttvarnir var samþykkt. Valdhroki og dramb ráðherrans skein í gegn,“ segir Gunnar Bragi.
Hann heldur áfram: „Ef eitthvað má segja um Alþingi í gegnum þennan kórónuveirufaraldur þá er það einna helst skortur á gagnrýni m.a. á aðgerðir stjórnvalda, allt í þágu samstöðu. Stjórnvöld hafa brugðist, óreiða hefur verið í upplýsingagjöf, aðgerðir handahófskenndar, stundum á að fletja kúrfuna en þess á milli að landið sé smitlaust. Til að bíta höfuðið af skömminni klúðruðu svo stjórnvöld, með heilbrigðisráðherra í fararbroddi, bólusetningarmálunum með því að elta Evrópusambandið og því hafa Íslendingar verið langt á eftir öðrum þjóðum í bólusetningum, m.a. miklu fjölmennari.“
Það styttist til kosninga og Gunnar Bragi hefur opnað sitt gamla vopnabúr. Lesið:
„Í rúmt ár hafa Íslendingar lifað við óvissu og fálmkennd vinnubrögð stjórnvalda. Í rúmt ár hafa þingmenn lagt sig fram við að sýna samstöðu með aðgerðunum þrátt fyrir að hafa margt við þær að athuga. Í rúmt ár hafa fjölmiðlar flutt tilkynningar og boðskap stjórnvalda gagnrýnislaust og í rúmt ár hefur þjóðin ekki þorað annað en að standa saman. Heilbrigðisráðherra hefur nýtt sér þetta og í skjóli faraldursins reynt að knésetja allt einkaframtak í heilbrigðismálum og klúðrað mikilvægum málum líkt og skimun fyrir leghálskrabbameini.
„Aðfaranótt 21. apríl rauf heilbrigðisráðherra samstöðuna með ótrúlegri ræðu sinni sem var vel undirbúin og plönuð. Mögulega er þetta liður í einhverri áætlun ríkisstjórnarinnar að láta komandi kosningar snúast um falska glansmynd af frambjóðendum ríkisstjórnarflokkanna fremur en málefni því málefnalega hefur ríkisstjórnin lítið fram að færa. Það er hins vegar ljóst að meðan gagnrýni er ekki leyfð er íslenskt samfélag á hættulegri braut. Braut rétttrúnaðar og sósíalískrar hugsunar sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn hafa varið í núverandi ríkisstjórn.“