Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði á Alþingi í kvöld að geri utanríkismálanefnd breytingar á tillögunni um að draga aðildarviðræðurnar til baka muni hann sætta sig við vilja nefndarinnar. „Ég mun ekki standa og arga ef nefndin leggur til breytingar á tillögunni, hugmynd Vinstri grænna er áhugaverð. Ég dæmi ekkert úr leik fyrirfram,“ sagði Gunnar Bragi.
Þessi orð féllu í framhaldi að því að Bjarni Benediktsson opnaði fyrir þjóðaratkvæði um tillögu Gunnars Braga. Utanríkisráðherra sagði utanríkismálanefnd eiga eftir sína vinnu, kalla til sín gesti, meta umræðuna og vinna með tillöguna.
Hann sagði tillöguna þurfa að komast til nefndarinnar og að ekki væri sanngjarnt að ætlast til að Alþingi afgreiði tillöguna í fyrstu umræðu og það áður en nefndin fær hana.