Alþingi „Ég hef líka ýmislegt til að lýsa vanþóknun á háttvirtum þingmanni og hennar framkomu. En ef þetta mál kemur inn á mitt borð þá mun ég að sjálfsögðu taka á því,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherrra á Alþingi í gær þegar hann átti í orðaskiptum við Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata.
Upphaf orðaskiptanna var að Birgitta vildi fá að vita jhvort og þá hvernig ráðuneyti Gunnars Braga hefði látið til sín taka að lögreglan í Feneyjum lokaði íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum, innsetningunni Moskan.
Ráðherrann svaraði fyrst á þann veg að málið hafi „…ekki með nokkrum hætti ratað inn á borð utanríkisráðuneytisins eða utanríkisþjónustunnar. Ég kannast ekki við að óskað hafi verið eftir sérstaklega aðkomu þjónustunnar að málinu, ef ég má orða það þannig. Við höfum líka í gegnum tíðina ekki talið rétt að blanda okkur beint inn í aðferðir eða þegar önnur ríki, erlend ríki beita fyrir sig mögulega sinni löggjöf og öðru slíku. Þá er það þannig í þessu tilfelli að þarna er vissulega um að ræða viðburð á erlendri grundu þar sem gilda ítölsk lög og ítalskar reglur. Ég hef í rauninni bara fylgst með þessu í gegnum fréttir, málið hefur ekki komið inn á mitt borð, eins og ég segi, og ég hef ekki séð ástæðu til þess að grípa inn í það með sérstökum hætti.“
„Ég er eiginlega pínu orðlaus því að það kom mjög skýrt fram þegar ég bað um að eiga orðastað við ráðherrann um hvað málið ætti að vera og mér hefði því fundist tilefni til þess að ráðherra setti sig aðeins inn í málið, ef ég má lýsa vanþóknun minni á því að ráðherrann hafi ekki gert það,“ sagði Birgitta.