Stjórnmál Gunnar Bragi Sveinsson hefur hætt í Framsóknarflokknum og mun því ekki sækjast eftir sæti á lista flokksins.
„Ég kveð flokkinn minn með mikilli sorg en sáttur við framlag mitt til hans. Ég mun sakna alls þess frábæra fólks sem þar er en margir þeirra hafa verið mér samferða þennan tíma,“ segir hann á Facebook.
Öll grein Gunnars Braga er hér:
„Það er svo merkilegt hvernig lífið gengur fyrir sig. Ég hef verið svo heppinn að oftast hefur líf mitt verið fullt af gleði og krafti en vissulega hafa komið mjög erfiðir tímar, persónulega og í vinnu. Ég hef verið þess aðnjótandi að vinna með og umgangast fólk sem hefur kennt mér og skemmt mér. Það eru forréttindi. Margt af þessu fólki hef ég hitt í störfum mínum fyrir Framsóknarflokkinn sem ég byrjaði að “vinna” fyrir í bæjarstjórnarkosningum 1974, sex ára gamall titlaður “sendill”. Frá þeim tíma hef ég unnið fyrir Framsóknarflokkinn og gengt ótal öðrum trúnaðarstöðum.
Fjölskyldan, góðir vinir og samferðamenn og starfið í Framsóknarflokknum hafa mótað mig sem persónu. Ég er ekki gallalaus, get verið bölvaður þverhaus og sitthvað fleira en ég er hreinskiptinn. Fólk veit hvar það hefur mig.
Auðvitað geta fylgt því vandamál að vera hreinskiptinn en ég held að fólk virði það.
Í uppvextinum leit ég upp til eldri og reyndari einstaklinga og vann náið með mörgum þeirra í kosninum og víðar. Ég sá að þeim var treystandi og því lagði maður það á sig kosningar eftir kosningar að tryggja viðkomandi sæti í sveitarstjórn eða á alþingi.
Nú er svo komið að hreinlyndið er á undanhaldi í flokknum mínum. Einhver annarleg öfl virðast hafa tekið forystu í flokknum, öfl sem ég hef líklega ekki verið nógu undirgefinn. Kafbátahernaður er stundaður.
Það er kannski ekkert nýtt en þegar að menn sem ég hef hingað til talið hreinskiptinna vina minna eru farnir að grafa undan persónu manns þá staldrar maður við. Menn sem ekki þora að horfa í augun á manni og segja “Ég held það sé kominn tími að þú dragir þig í hlé” en kjósa þess í stað að grafa undan fólki eiga ekki traust skilið. Verst þykir mér að þessi óheilindi eru leidd af fólki í trúnaðarstöðum fyrir flokkinn í minni heimabyggð og einstaklingum sem telja sig eiga að ráða framvindu mála.
Menn geta borið titla, skreytt sig borðum á hátíðisstundum, vígt hús eða sjósett skip en það gerir þá ekki að traustum eða merkilegum mönnum.
Framsóknarfélagið mitt er klofið og ég sé að fólki er skipt í fylkingar. Gamla góða vinalega kveðjan er í sumum tilfellum orðin í besta falli kurteisisleg. Þetta á ekki að vera svona, þetta þarf ekki að vera svona. Öllu þessu mátti forða hefðu menn hlustað eða komið hreint fram. Því miður er það nú að rætast sem ég og fleiri vöruðum við og ég sagði við marga vini mína síðla sumars 2016 í upphafi innanflokksátakanna.
Þegar svona er komið þá veltir maður framtíðinni fyrir sér. Vil ég vinna í þessu umhverfi? Get ég unnið með fólki sem starfar með þessum hætti eða lætur það viðgangast? Ég hef undanfarið hitt eða hringt í fjöldann allan af frábæru fólki sem ýmist hvetur mig til að taka slaginn, “ekki láta þá komast upp með þetta” eða þá að það hvetur mig til að draga mig í hlé vegna ástandsins í flokknum.
Þegar ég rita þetta þá sit ég með hnút í maganum enda ekki létt að hverfa á braut. Eflaust gæti ég unnið forsystusætið en hvað er unnið með því ef samstarfið verður óbærilegt? Er heiðarlegt að bjóða sig fram vitandi að allar líkur eru á að maður myndi hrökklast úr þingflokknum?
Eftir að hafa ráðfært mig við fjölskyldu og vini hef ég ákveðið að draga framboð mitt til baka. Ég hef jafnframt ákveðið að segja mig úr Framsóknarflokknum.
Hef ég upplýst formann Kjördæmissambands framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi auk formanns og varaformanns Framsóknarflokkins um þetta.
Ég kveð flokkinn minn með mikilli sorg en sáttur við framlag mitt til hans. Ég mun sakna alls þess frábæra fólks sem þar er en margir þeirra hafa verið mér samferða þennan tíma.
Mér finnst miður að hafa ekki náð að tala við alla þá sem ég hefði viljað tala við undanfarna daga og þá vil ég biðja afsökunar.
Hvað ég geri nú er ekki ljóst en ég mun ákveða það næstu daga.
Fjölmiðlum mun ég ekki svara í dag og vona ég að þeir virði það.
Kæru vinir í Framsóknarflokknum, takk og vegni ykkur vel.
Ykkar einlægur, Gunnar Bragi.“