„Gunnar Bragi er greinilega ekki búinn að jafna sig á Klausturbarkvöldinu. Sigmundur ábóti var þar ekki hlutverki sínu vaxinn. Munkarnir í „miðflokknum“ hafa ekki náð áttum,“ skrifar okkar maður í Noregi, Guðni Ölversson.
„Í stað þess að stunda alvöru stjórnmál er varaformaðurinn, Gunnar Bragi, að eltast við hvað þulur RÚV í Júróvisjónkeppni, hóstar upp úr sér í ákafa leiksins.“ Hér ber að leiðrétta okkar ágæta Guðna, staða varaformanns í Miðflokknum var lögð af þegar Vigdís Hauksdóttir sóttist eftir að verða varaformaður Miðflokksins. Gunnar Bragi er hins vegar þingflokksformaður.
„Má vel vera að orðaval Gísla Marteins hafi ekki verið nægilega vel ígrundað. En þannig er það í hverjum einasta íþróttakappleik sem lýst er í beinni. Gunnar Bragi gerði sig að fífli, enn einu sinni, meðan Gísli Marteinn lét tilfinningar ráða för. Ég held að 80% af Evrópubúum hafi skömm á aðgerðum Ísraela þessa dagana. Gunnar Bragi, sem fyrrverandi utanríkisráðherra lýðveldisins, ætti að sjá það að yfirgangur Ísraela er ekki í takt við það sem íslensk þjóð vill. Þrátt fyrir að nokkrir skæruliðar Hamas brölti um með teygjubyssur og barefli á móti ræningjum sem stálu landi þeirra. Sennilega er Gunnar Bragi, ásamt flestum þingflokksfélögum sínum, betur geymdur á Klausturbar en í Alþingishúsinu,“ skrifar Guðni okkar Ölversson.