„Dylgjur Ingu eru vitanlega pólitískar enda flokkur hennar í vanda en miðað við hvernig hún sjálf vill að stjórnmálin séu þá kemur þetta á óvart.“
Þetta skrifar Gunnari Bragi Sveinsson sem svar við grein Ingu Sæland um Samherjamálið. Í grein sem Inga skrifaði lét hún að því liggja að í tíð Gunnars Braga í sjávarútvegsráðuneytinu hafi Samherjamenn komist yfir drög að væntanlegum viðskiptasamningi Íslands og Póllands.
„Ýjar hún að því að Samherji hafi haft einhvern aðgang að ráðuneytinu. Nú er það þannig að samkomulagið er milli tveggja aðila, Íslands og Póllands. Fjölmargir koma að slíkri vinnu, embættismenn beggja landa, ræðismenn og sendiráðsfólk, starfsfólk ráðherra, ráðherra o.fl.,“ skrifar Gunnar Bragi í Moggagrein í dag. Ætla má að Gunnari Braga sé heitt í hamsi: „Það má dylgja um margt t.d. að Inga nyti sérkjara í sinni risastóru öryrkjaíbúð sem rúmað gæti stóra fjölskyldu eða að fjármunir sem hún lagði hald á eftir söfnun í Háskólabíói hefðu ekki skilað sér á réttan stað?“
Í skrifum Gunnars Braga segir einnig: „„Stjórnvöld á hverjum tíma reyna að gera samninga við önnur ríki um hagsmuni þjóðarinnar. Stjórnmálamenn mæta á viðburði o.fl. til að sýna hópum eða fyrirtækjum stuðning en ekki man ég eftir því að nokkurn tíma hafi eitt fyrirtæki notið sérstakrar fyrirgreiðslu, a.m.k. ekki hjá mér.“