Guðrún Aspelund verðandi sóttvarnalæknir segist hafa ætlað sér að hefja 5 ára sérnám í almennum skurðlækningum við Yale-háskóla í Bandaríkjunum, þegar babb kom í bátinn.
Hún var að vísu „komin inn fyrir þröskuldinn“ eftir að hafa starfað í 2 ár á rannsóknastofu við háskólann; en þurfti að sækja um nýtt dvalarleyfi vegna sérnámsins.
Það gekk illa og það kom að því að Guðrúnu var vísað úr landi.
Segir hún það hafa verið mikinn skell og Guðrún óttaðist mjög að staðan yrði tekin af henni.
Hún beið milli vonar og ótta á Íslandi, en svo kom á daginn að fleiri í hennar stöðu höfðu lent í sömu ógöngum við aðra háskóla.
Þetta varð til þess að Joe Lieberman öldungadeildarþingmaður Connecticut gekk í málið og leysti það.
Og allt er gott sem endar vel. Eftir mánuð gat Guðrún því snúið aftur til Yale.
„Ég á honum mikið að þakka. Það var mjög óþægilegt að bíða heima og framtíðin var óráðin í heilan mánuð,“ segir Guðrún.