- Advertisement -

Guðlaugur Þór spilar í vörn Vg

„Á yfirstandandi þingi hefur stjórnarandstaðan sérstaklega beint spjótum að forsætisráðherra og hennar flokki fyrir að standa ekki nægilega vel vörð um áherslur Vinstri grænna í stjórnarsamstarfinu.“

Ræða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í gærkvöld vakti athygli. Hann lagði sig fram að verja nýjasta feng Sjálfsstæðisflokksins, það er Vinstri græn og Katrínu Jakobsdóttur.

Guðlaugur Þór sagði þetta:

„Á yfirstandandi þingi hefur stjórnarandstaðan sérstaklega beint spjótum að forsætisráðherra og hennar flokki fyrir að standa ekki nægilega vel vörð um áherslur Vinstri grænna í stjórnarsamstarfinu. Þessi gagnrýni er í senn ósanngjörn og ómálefnaleg, og hittir þá reyndar verst fyrir sem að henni standa.“

Kaus að benda á Viðreisn

Þú gætir haft áhuga á þessum

Guðlaugur Þór greip til þess í vörn sinni að benda á Viðreisn. Flokk sem hann hefur greinilega ekki miklar mætur á.

„Vinstri grænir hafa frá stofnun verið eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem hefur verið andvígur veru Íslands í NATO. Þetta er eitt af stefnumiðum flokksins en alls ekki hið eina. Hins vegar var annar stjórnmálaflokkur stofnaður fyrir fáeinum misserum í kringum eitt stefnumál, inngöngu í Evrópusambandið. Það var þó ekkert tiltökumál fyrir þann flokk að leggja þetta eina stefnumál sitt til hliðar fyrir sæti í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Og að loknum síðustu kosningum ítrekaði formaður Viðreisnar að flokkur hennar myndi ekki gera umsókn um aðild að Evrópusambandinu að skilyrði fyrir ríkisstjórnarþátttöku.“

Ósmekklegt í hæsta máta

Áfram hélt utanríkisráðherra. „Það er hins vegar ósmekklegt í hæsta máta að ráðast ítrekað á forsætisráðherra fyrir að ríkisstjórn hennar byggi á þjóðaröryggisstefnu samþykktri á Alþingi sem felur í sér aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Vinstri grænir hafa auðvitað ekki snúið baki við stefnu sinni varðandi NATO með forystu sinni í ríkisstjórn, ekki frekar en Viðreisn sneri baki við sínu eina stefnumáli með þátttöku í síðustu ríkisstjórn.“

Festa við stjórn landsins

Og að endingu þessi tilvitnun í varnarræðu utanríksiráðherrans: „Það er nefnilega ábyrgðarhluti að veljast til forystu í landsmálum. Sumir standa undir þeirri ábyrgð, aðrir ekki. Sú ábyrgð felst m.a. í því að gera málamiðlanir og koma á festu við stjórn landsins. Það hefur tekist með þeirri ríkisstjórn sem nú situr undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: