Fréttir

„Guðlaugur Þór hallaði réttu máli“

By Miðjan

April 16, 2019

„Fréttir úti í bæ eru ekki þingskjöl. Guðlaugur Þór hallaði þarna réttu máli.“

„Í svari við spurningu frá mér las Guðlaugur Þór utanríkisráðherra upp úr yfirlýsingu Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst. Ég kallaði fram í og spurði hvort þetta plagg væri meðal gagna málsins. Þá segir Guðlaugur Þór: Ef þingmaðurinn kynnir sér ekki gögn málsins o.s.frv.,“segir Ólafur Ísleifsson Miðflokki og er ekki sáttur við athugasemd Guðlaugs Þórs þegar hann spurði hvort Ólafur hafi ekki mætt lesinn til umræðu um þriðja orkupakkann.

„Yfirlýsinguna var ekki að finna á vef Alþingis. Hún var ekki meðal fjölmargra fylgigagna þingsályktunartillögunnar sem var til umræðu. Hún var ekki meðal gagna málsins. Hins vegar er hana að finna sem frétt á vef stjórnarráðsins,“ segir Ólafur.

Og hann bætir við: „Fréttir úti í bæ eru ekki þingskjöl. Guðlaugur Þór hallaði þarna réttu máli. Ég kannaðist ekki við plaggið sem hann las upp úr enda hafði ég ekki séð það meðal gagna málsins. Nei, ég kom ekki ólesinn til umræðunnar. Þvert á móti. Ég hafði lesið gögn málsins en það hugtak sýnist teygjanlegt í huga Guðlaugs Þórs.“