Guðni Ágústsson, fyrrum landbúnaðarráðherra, skrifar í Moggann í dag. Guðni hefur áhyggjur af stöðu landbúnaðarins. Segir enga flokka sinna honum sem skyldi. Þrátt fyrir að þrír „framsóknarflokkar“ myndi ríkisstjórnina. “…hví hafa þeir flokkar yfirgefið bændur sem alltaf stóðu að landbúnaði og sveitunum?“
Grein Guðna byrjar svona: „Ekkert kom á óvart í neyðarkalli framkvæmdastjóra Bændasamtakanna í Morgunblaðinu 8. ágúst sl., nema frábær hreinskilni. Greinina nefnir Vígdís Häsler „Hungurleikarnir“. Greinin er vel rökstudd en framkvæmdastjórinn staðnæmist aftur og aftur við það vilja- eða getuleysi sem ríkt hefur um langa hríð, ekki síst hjá stjórnmálamönnunum. Þessi dauðahönd er að leiða af sér upplausn í mörgum búgreinum landbúnaðarins. Sumar búgreinar sjá varla til sólar og bændum finnst sinnuleysið vera skilaboð um að hverfa til annarra starfa eða banna börnum sínum að taka við búi. Nú er auðveldast segja margir að loka fjósinu, fáir ráða við nýbyggingu. Bændur fresta því að taka fé á ný eftir riðu, þó ráðuneytið sé bæði önugt og sparsamt um raunverulegar bætur, þá er betra að búa á styrkjum en rekstri sauðfjárbús. Svo gefur ferðaþjónustan gull og græna skóga með dollurum og evrum, og peninginn lofa menn að morgni eins og mey. Kjötsalar hafa ekki selt íslenskt nautakjöt á árinu, enda tollasamningar gerðir með hagsmuni ESB-bænda í huga annaðhvort vegna auðmýktar eða þess að embættismenn og ráðherrar vaka ekki yfir hagsmunum landsins.“
Best að halda áfram með greinina: „Vigdís segir í grein sinni: „Ef ekkert verður að gert og fram heldur sem horfir getur Ísland orðið að dystópíu Suzanne Collins og ekki í skáldaðri samfélagsmynd. Þær áskoranir sem bændur standa frammi fyrir eru raunverulegar og því þarf að spyrja „íslenska Kapítólið“, þá 63 þingmenn sem sitja á Alþingi og 405 sveitarstjórnarmenn, hvort það eigi að vera landbúnaðarframleiðsla á Íslandi, eða erum við bara í þessu til að kitla hégóma þeirra.“
Greinin endar svona: „Beittari getur spurningin ekki verið til alþingismanna? Spurninguna má þrengja og spyrja, hví hafa þeir flokkar yfirgefið bændur sem alltaf stóðu að landbúnaði og sveitunum? Hundaþvotturinn birtist í því að nema orðið landbúnaður af öllum stofnunum og ráðuneytið er kennt við mat. En landbúnaður er mikilvægasti atvinnuvegur hverrar þjóðar, í honum er matvælaöryggi og menning þjóðar falin. Guð blessi landbúnaðinn,“ skrifaði Guðni Ágústsson í Mogga dagsins.