Gúanóútgerðirnar fóru gegn þjóðinni
Gúanóútgerðirnar töldu sig eiga makrílinn
Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherrar, skrifar skýrslu sem birt er í Mogganum í dag.
„Mikið vill meira segir gamall málsháttur. Þeim útgerðum sem höfðu veitt makríl hömlulítið í bræðslu, eða í „gúanó“ eins og það er kallað, djúpt undan Austurlandi þótti að sér vegið,“ segir Jón í skýrslunni, þar sem hann talar um hina umdeildu úthlutun á makrílkvóta sem varð kveikjan að þekktu dómsmáli.
„Þessar útgerðir fengu reyndar svipað magn í sinn hlut og þær höfðu veitt árið á undan og því ekki neitt frá þeim tekið. En þær vildu fá fleiri tonn úr hinum vaxandi makrílstofni í sinn hlut. Og þær kærðu ráðstöfun ráðherra til dómstóla. Héraðsdómur hafnaði kröfum þeirra og kvað upp þann vel rökstudda dóm að ráðherra hefði haft fulla heimild til þessara aðgerða varðandi makrílinn. Útgerðirnar undu því illa og kærðu héraðsdóminn áfram til hæstaréttar. Þá heyrðist sama fótatakið og ég kannaðist við úr tröppum ráðuneytisins.“
Áfram með söguna: „Nú var kallaður í dóminn fyrrverandi hæstaréttardómari, gamall ráðuneytisstjóri úr sjávarútvegsráðuneytinu og einn af aðalhöfundum kvótalaganna sem nú átti að fara að dæma eftir. Þau lög voru þá eins og nú pólitískt mjög umdeild. Ekki ætla ég hér að segja að nærvera hins gamla ráðuneytisstjóra kvótalagaáranna hafi haft áhrif á dómsorðin. En óneitanlega var það kyndugt að ríkislögmaður skyldi ekki víkja fyrrverandi ráðuneytisstjóra sjávarútvegsmála úr dómnum svo tengdur sem hann var fyrri pólitískri vinnu í málinu.“
Áfram skrifar Jón: „Hæstiréttur sneri við dómi héraðsdóms og dæmdi þessum bræðsluútgerðum makrílkvótann sem úthlutað hafði verið á aðra bátaflokka og gerði ríkið auk þess skaðabótaskylt eins og kunnugt er. Auk þess að fá meintan kvóta þeirra dæmdan til baka kröfðust þær nú rúmlega tíu milljarða í bætur. Allar þessar útgerðir höfðu þó hagnast verulega á ákvörðunum ráðherra í auknum verðmætum aflans. Og raunar höfðu þessar makrílgöngur inn í íslenska lögsögu komið upphaflega eins og happdrættisvinningur upp í hendurnar á þeim, án þess að miklar fjárfestingar hefðu komið á undan. Ráðherra hafði staðið fast í fætur gagnvart kröfum ESB og tryggt íslensku þjóðinni allri réttinn til makrílveiðanna.“
Meira um dóminn: „Það er mín skoðun að hæstiréttur hafi brugðist þjóðinni í þessu máli og gengið í lið með einstökum „kvótagreifum“ og dæmt gegn þeirri lagagrein sem honum bar fyrst og fremst að horfa til, það er: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“ Þessi dómur sýnir fram á hversu andstæð lagatúlkun getur verið hagsmunum þjóðarinnar.
Þær útgerðir sem reyndust mér erfiðastar á sínum tíma ganga nú frá borði með „öngulinn í rassinum“ eins og sagt er, hvort sem þær gefa frá sér þessar bótakröfur vegna makríls eða ekki. Þær eiga líka eftir að sanna tjón sitt vegna reglugerðarinnar sem er þeim ekki svo auðvelt.“
-sme