„Það eru lögfræðilegir loftfimleikar að halda því fram að þriðji orkupakkinn leiði til þess að hægt verði að skylda íslenska ríkið til að leggja sæstreng. Þetta kom fram í máli Skúla Magnússonar, héraðsdómara og dósents við lagadeild Háskóla Íslands, á fundi utanríkismálanefndar í gær,“ skrifar utanríkisráðherrann Guðlaugur Þór Þórðarson.
„Það er alveg ljóst í hans álitsgerð að það eru ekki heimildir til aðila utan Íslands í þriðja orkupakkanum til ákvarðana á nýtingu auðlinda okkar. Það er heldur ekki neitt í orkupakkanum sem gefur einhverjar heimildir þannig að einhver annar geti fyrirskipað um lagningu sæstrengs. Það var mjög skýrt og gott að fá það fram hjá honum að vel rökstuddu máli,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar.
Áslaug Arna bendir líka á að Skúli telji framsal valdheimilda innan marka og gangi meira að segja skemur en til dæmis evrópska fjármálalöggjöfin. „Forræði á raforkumarkaði er hjá okkur og verður ekki fært frá íslenskum stjórnvöldum. Ég held að þetta séu allt atriði sem hafa verið uppi í umræðunni og oft í talsverðum rangfærslum,“ segir hún.